Spurt og svarað

16. mars 2011

Brjóstagjöf-hversu oft?

Góðan dag!
Er raunhæft að ætla 3,5 mánaða gömlum dreng 6-7 gjafir á sólarhring. Ég mjólka mjög vel og hann þyngist vel. Mér þætti "þægilegra" að gefa honum 6-7 lengri gjafir á dag frekar en 8-9 styttri. Hann drekkur þá u.þ.b. kl 5-8-11-13-16-18-20-21. Hann vaknar svo oft og fer strax að gráta og þá huggar brjóstið þrátt fyrir að það séu "bara" 1,5-2 tímar frá gjöf. Mig langar að gjafir séu á nokkuð ákveðnum tímum svo hann læri að brjóstið komi ekki þegar maður grætur. Er eitthvað til í þessu hjá mér? Mér finnst að auki dálítið erfitt að finna taktinn milli svefns og gjafa, t.d. þegar hann vaknar kl. 6 að morgni eftir 8 tíma svefn þá sofnar hann stuttan dúr og vill drekka aftur kl 8. Væri sniðugra að "fara á fætur" í rúman klukkutíma gefa honum aðra gjöf og svo leggja hann í dúr svo hann sofi lengur? Sama á við um hádegisbil. Hann vaknar úr stuttum dúr 11:30 og fær að drekka. Þá gef ég honum aftur 1,5 tímum síðar áður en hann fer í langan dúr. Er ekki best að þau fari nokkuð södd að sofa?
Takk fyrir og með von um svar.
 
Sæl og blessuð!
Það er alltaf erfitt að setja reglur um brjóstabörn. Það er það sem er svo yndislegt við þau. Þau setja manni reglurnar. Þau hafa ekki hugmynd um neina klukku. Þau fara bara eftir því sem líkami þeirra segir þeim. Þau kalla eftir mat þegar líkaminn segir að það vanti næringarefni til að stækka. Þeim er nákvæmlega sama um hvenær þau fengu síðast að borða. Það er erfitt fyrir marga að aðlagast þessu þar sem þjóðfélagið allt er bundið í ramma klukku, gramma, millilítra og annarra mælieininga. En í byrjun erum við ekki bundin þessum mælieiningum. Það hefur verið mikil tilhneiging til að þvinga börn í einhver kerfi sem henta umhverfinu. Að sjálfsögðu er það hægt með ákveðinni fyrirhöfn en flestir telja nú á tímum að það sé ekki jákvætt. Það hefur verið sýnt fram á að það sem veitir börnum besta og eðlilegasta þroskann á öllum sviðum er að gefa þeim brjóst þegar þau kalla eftir því. Sumum börnum hentar að taka fáar stórar gjafir, öðrum margar litlar en algengast er að kerfið hjá þeim sveiflist til milli daga, milli dagshluta, milli mánaða allt eftir því hvað líkami þeirra þarfnast og hvað er í boði. Sem dæmi er gjöfin eftir langan nætursvefn oftast nokkuð næringarsnauð mjólk. Því er alveg gefið að barn í örum vexti kallar fljótt aftur eftir næringu. Þannig að mitt mat er að gjafamynstur barns þíns er algjörlega eðlilegt og ég ráðlegg þér að láta barnið ráða og að þú reynir að aðlagast barninu.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. mars 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.