Spurt og svarað

22. júní 2009

Brjóstagjöf/pelagjöf

Sælar!

Þannig er mál með vexti að ég á tæplega 2 mánaða prinsessu. Brjóstagjöfin hefur verið MJÖG erfið frá upphafi. Ég er með stór brjóst, flatar vörtur og litla greyið náði illa að taka brjóstið. Hún vildi ekki mexikanahatt. Hún fékk aldrei snuð eða pela fyrstu 2 vikurnar en hélt áfram að taka brjóstið vitlaust. Ég fékk sár, sýkingar og stíflur en áfram þrjóskaðist ég því alls staðar heyrir maður að brjóstamjólkin sé það besta fyrir barnið. Þar sem hún þyngdist illa fór ég að gefa henni ábót af þurrmjólk. Ég reyndi staup, sprautu og meira að segja fingurgjöf. Ég gafst upp og gaf pela og reyndi   að mjólka mig smá svo hún fengi einhverja brjóstamjólk. Núna er hún nánast bara að fá þurrmjólk og virðist braggast vel. Þar sem hún er loksins að sætta sig við hattinn reyni ég að auka brjóstagjöfina aftur. Sárin eru að lagast. Ég ætla að gefa þessu einn séns enn þar sem mig langar virkilega að hafa hana á brjósti. Það sem mér liggur á hjarta er að mér finnst ekki fallegt hvað talað er alls staðar niður á pelagjöf og þurrmjólk. Mér finnst ég alls staðar rekast á skrif um ókosti þurrmjólkur og kosti brjóstagjafar. Fyrir konur eins og mig sem þrá svo að gera sitt besta  er þetta mjög sárt og ekki lagar þetta samviskubitið yfir því hvað maður er ómögulegur. Núna seinast las ég svar um það að þurrmjólk auki líkur á sjúkdómum í meltingarfærum. Ég hef líka heyrt að líkur á vöggudauða aukist og að pelabörn verði of feit og svo framvegis. Nú spyr ég: Er ekkert gott sem þið hafið að segja um þurrmjólkina og af hverju í ósköpunum er verið að framleiða þetta ef þetta er svona slæmt. Og annað, hvað eigum við að gera þegar brjóstagjöfin gengur ekki? Þið fyrirgefið langlokuna en þetta liggur mér þungt á hjarta. Með von um að þið hafið eitthvað við þessu að segja.


Sæl og blessuð!

Það er sorglegt að heyra hvað brjóstagjöfin þín hefur gengið illa. Þér virðist hafa vantað miklu meiri aðstoð. Sár á vörtum á að laga á nokkrum dögum en ekki mánuðum. Vonandi gengur þessi síðasta tilraun betur, en ég ráðlegg þér eindregið að fá góða hjálp.

Ástæðan fyrir því að áhersla er lögð á kosti brjóstamjólkur umfram þurrmjólkur er einfaldlega vegna þess að hún er besta fæðan fyrir ungbarnið. Það er nauðsynlegt að halda þessu á lofti því það er fullt af fólki sem heldur því fram að þurrmjólk sé jafngóð og jafnvel betri en brjóstamjólk. Þetta getur stundum valdið því að farið er að nota þurrmjólk mjög „frjálslega“ og þar með svipta mörg börn brjóstamjólk. Það er samt ákveðið hlutfall kvenna sem getur ekki mjólkað, vill ekki hafa á brjósti eða brjóstagjöfin fer út um þúfur hjá. Þær konur þurfa að sjálfsögðu stuðning. Það er auðvitað frábært fyrir þær konur að hafa þurrmjólkina. Hana er búið að þróa í marga áratugi þannig að hún komist eins nálægt brjóstamjólk og kostur er. Við værum illa staddar ef hún væri ekki til. Mín reynsla er að konur gera sitt besta til að barnið þeirra þroskist sem best. Þær fá aðstoð ef gengur illa en að lokum eru það hver móðir og hennar barns sem finna út þá leið sem virkar best fyrir þau. Þær eiga alltaf að geta borið höfuð hátt og verið stoltar af þeirri leið sem þær fundu. Það er ekki ástæða til að hafa samviskubit þegar búið er að leggja mikið á sig.

Gangi þér sem allra best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júní 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.