Spurt og svarað

28. ágúst 2008

Brjóstagjöfin að renna út í sandinn. Hjálp!

Góðan dag!

Ég á þriggja vikna dóttur sem er frekar óvær. Ég hef hins vegar komist að því að þetta er bara hungur og ekkert annað! Hún hefur verið að þyngjast en ekki nægilega mikið. Síðast hafði hún þyngst um 100 grömm á 3 dögum og hjúkkan var ekki mjög ánægð með það. Það er mjög misjafnt hvað hún þyngist mikið og ég þarf að hafa mikið fyrir því að gefa henni brjóst. Það stingur mig alveg í hjartað að sjá barnið svona svangt og ég er með hana á brjóstinu nánast út í eitt og finnst hún alls ekki vera að fá nóg að drekka. Þess vegna var mér ráðlagt að gefa henni ábót svo ég sprauta upp í hana (með tárin í augunum og svíðandi samviskubit) þurrmjólk með sprautu einu sinni til tvisvar sinnum á dag. Ég á eitt barn fyrir og brjóstagjöfin rann út í sandinn þegar það var rúmlega 4ra mánaða og ég óttast að ég muni verða komin með pelabarn mun fyrr í þetta skiptið. Ég skil ekki hvað það er sem veldur því ég hef verið mjög ákveðin í að láta þetta ganga, hef verið MJÖG dugleg að leggja hana á brjóst og reynt að fara eftir öllum ráðum, drukkið mjólkuraukandi te, vatn og malt og gætt þess að borða.

Geta sumar mæður einfaldlega ekki mjólkað nægilega mikið? Getur andlegt ástand móður skemmt fyrir brjóstagjöfinni? Ég er þunglynd og finnst andleg vanlíðan eftir fæðingu hafa aukist til muna en það gæti hæglega verið vegna álags af bjóstagjöfinni. Ég er algjörlega ráðalaus og mér finnst ég versta móðir sem fyrirfinnst á jarðríki! Hvað get ég gert til að metta yndislegu dóttur mína?Sæl og blessuð!

Það er sárt að heyra að það gengur svona illa. Oft þarf að horfa á allt brjóstagjafaferlið í samhengi til að reyna að laga svona ástand. Þú ert að sjálfsögðu ekki slæm móðir þegar þú ert að gera allt sem þú getur til að laga ástandið. Það er heldur ekki óeðlilegt að börn þyngist svolítið skrykkjótt fyrstu vikurnar. En það er líklegt að þér veiti ekki af utanaðkomandi hjálp og stuðningi.

  • Það sem er mikilvægast sem þú gerir er að leggja stúlkuna svona oft á brjóst.
  • Það sem þú getur gert að auki er að hafa hana mikið upp við þig. Þú getur prófað að nota sling eða vafning til að festa hana við þig. Þannig reynirðu að hafa hana utan á þér og getur um leið sinnt öðrum daglegum þörfum. Það skiptir ekki máli hvort hún er vakandi eða sofandi. Það er oft að það er eins og börn þrífist betur við þetta og mæður verða næmari á þarfir barnsins.
  • Í 3ja lagi þarftu að reyna að laga þína andlegu líðan því hún skiptir vissulega máli. Ef þú ert það þunglynd að þú þurfir á lyfjagjöf að halda þá þarftu að drífa þig í að byrja á henni. Lyfin trufla ekki neitt en áhrifin geta verið brjóstagjöfinni mjög til góðs.

Vona að þetta hjálpi.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.