Spurt og svarað

14. júní 2005

Brjóstahöfnun

Sæl!

Ég á við það vandamál að stríða að vera með alltof öflugt losunarviðbragð. Dóttir mín sem er 9 vikna er alveg búin að gefast upp á þessu og hafnar brjóstinu. Hún drekkur eðlilega á nóttunni og þegar hún er nývöknuð yfir daginn. Þegar ég gef henni áður en hún fer að sofa á daginn og kvöldin verð ég að svæfa hana fyrst og taka hana svo og leggja sofandi á brjóst. Þessu fylgir mikill grátur og tekur oft langan tíma og er erfitt að eiga við nema heima fyrir. Ég lenti í þessu líka með eldra barnið mitt fyrir 9 árum en þá gerði ég mér ekki grein fyrir ástæðu höfnunarinnar fyrr en brjóstaverkfallið var búið að standa í margar vikur. Það sem ég gerði þá var að fylgja ráði sem ég sá í gömlum „Mjólkurpósti“, þ.e. að gefa sama brjóstið tvisvar í röð, en það átti að minnka örvunina og mjólkurframleiðsluna og þar með kraftinn á bununni. Ég veit að það er ekki endilega sama að hafa kröftugt losunarviðbragð og að hafa mikla mjólk, en ég er a.m.k. með yfirdrifið af mjólk. Ef barnið sefur alla nóttina eins og gerist stundum, þá vakna ég með yfirfull brjóst og þegar ég gef annað brjóstið þá lekur alltaf úr hinu og oft mikið. Eldra barnið mitt fór ekki að drekka eðlilega aftur fyrr en 6 mánaða og ég veit ekki hve mikil áhrif þessi aðferð að gefa sama brjóstið tvisvar hafði á það. Ég er að spá í hvað þið ráðleggið í svona tilvikum? Ég er búin að lesa hér á netinu um að barnið geri ýmislegt til að minnka rennslið og það passar allt við það sem mitt barn hefur verið að gera. Ég las líka að það ætti að kreista saman vörtubauginn á meðan mesta losunarviðbragðið er. Mér gengur illa að gera það, ég er ekki með stóran vörtubaug og mest af brúna svæðinu er uppi í barninu á meðan það drekkur. Mér finnst ég draga geirvörtuna út úr henni með því að vera að halda þarna um og spyr jafnframt hvort þetta geti ekki orsakað stíflur? Þá er það annað að hún tekur brjóstið bara alls ekki ef hún er vakandi en drekkur eins og ekkert sé þegar hún sefur eða er nývöknuð, er þá einhver tilgangur að vera að klípa um vörtubauginn úr þessu, fyrst ég var ekki búin að rekast á þetta ráð áður en hún hafnaði brjóstinu alveg? Í bæklingi sem maður fær um brjóstagjöf hjá ungbarnaeftirlitinu er talað um að minnka mjólk með því að drekka salvíu- eða piparmyntute og kæla brjóstið eftir gjöf Skiptir þetta máli?

Kveðja, mamma.

.....................................................................

Sæl og blessuð mamma.

Já, það er ekkert auðvelt ástand að eiga við þegar losunarviðbragðið er of kröftugt. Þú ert nú greinilega búin að lesa eitthvað af því sem búið er að skrifa um þetta en hvert barn er einstakt og ekki víst að það sama passi fyrir alla. Það sem ég á við er að þú getur þurft að prófa þig áfram með þau ráð sem í boði eru. Það virkar greinilega vel hjá þér að gefa barninu þegar það er hálfsofandi. Hjá sumum er það eina ráðið sem dugar. Það getur hins vegar verið erfitt við það að eiga því jafnframt verður maður að finna upp aðferð til að svæfa þau eða hálfsvæfa á mjög stuttum tíma.

Það virðist líka virka hjá þér að einhverju leyti að nota þyngdaraflið þ.e. að liggja útaf. Hjá sumum er það eina atriðið sem virkar. Prófaðu fleiri útgáfur af þeirri aðferð. Vertu hálfútafliggjandi eða á ská.

Bestu verkunina sé ég af klipaðferðinni. Hún er líka sú aðferð sem virkar til frambúðar. Barnið tekur móður sína aftur í sátt og hægt er að hætta meðferðinni seinna og gefa „eins og venjuleg manneskja“. Það er misskilningur ef fram hefur komið hjá mér að klípa ætti í vörtubauginn. Ég veit manna best að margar konur eru ekki með vörtubaug nema nokkra millimetra. Hann fer upp í barnið plús stórt svæði af húð. Það sem ég meina er að klipið sé saman fyrir framan munn barnsins. Fyrst kemur munnur barnsins með vörtunni upp í. Svo koma varir barnsins. Svo kemur brjóstið og þar er klipið saman, ekki alveg upp við varirnar heldur þannig að varirnar séu ekki snertar og barnið þar með ekki truflað en samt eins nálægt og hægt er. Þumall er hafður efri varar megin og hinir puttarnir saman neðri varar megin. Svo er bara klemmt saman, nokkuð þétt og klemmunni haldið sem stöðugast í 1-3 mínútur. Þetta virkar þannig að hraða flæðið í byrjun hægist og hörðu bunurnar sem stundum eru í byrjun og meiða barnið upp í gómnum hætta. Þetta er ekki stífluhvetjandi því þú hættir klipinu eftir örfáar mínútur og passar upp á að ekkert þrengi að brjóstinu það sem eftir lifir gjafar.

Varðandi of mikla mjólkurframleiðslu þá er það rétt að það getur virkað ágætlega að gefa sama brjóstið tvisvar sinnum í röð. Mér heyrist þú líka þurfa að taka þig á í að stoppa allan óþarfa leka úr brjóstunum. Annars ert þú alveg að komast á þann tíma að brjóstin fara að aðlagast betur og þan að hætta. Ég mæli ekki með því að eðlileg, fín brjóst í góðri framleiðslu séu kæld. Það er hins vegar aðferð sem notuð er við vandræðum af ýmsum toga.

Með kveðju og von um að temprunin takist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.