Spurt og svarað

18. janúar 2009

Brjóstakrem

Er ekki í lagi að bera brjóstakrem (Lansinoh) á brjóstin ef maður er þurr og jafnvel með sár sem þurfa að gróa? Ég hef verið að lesa hér á vefnum og rekist þar á mismunandi upplýsingar um brjóstakrem. Á einum stað er talað um "Hvað er það sem maður þarf að hafa tilbúið fyrir heimkomu barnsins" og þar er listi af hlutum m.a. brjóstakrem. Á öðrum stað er fyrirspurn frá einni sem er með sár á geivörtum og henni er ráðlagt: "Þú átt heldur ekki að nota brjóstakrem og ef þú hefur verið að gera það þá er rétti tíminn til að hætta því núna. Ég hef átt í vandræðum með litla strákinn minn (nú 4 vikna) að grípa rétt. Ég er stöðugt að taka hann af og setja á aftur og hann er oft mikið á iði og þá færist brjóstið til í munninum á honum o.s.frv. Á tímabili var ég komin með mikið af litlum sárum á brjóstin og þau þurr. Má maður ekki nota brjóstakrem (Lansinoh) á brjóstin ef þar eru sár? Það virðist ekki vera komin sýking í þau heldur komu þau aðallega vegna þurrka og af baráttu við að taka brjóstið rétt.

Ein ringluð.

 


Sæl og blessuð ringluð.

Það er ekki skrýtið þótt þér þyki þetta ruglingslegt. Kremið sem þú talar um er mjög gott sérstaklega við þurri húð. Þurr húð er hins vegar sjaldgæf á vörtum á brjóstagjafatíma. Það er helst ef mikið hefur verið um sápuþvott á meðgöngu eða einhverskonar efnameðferð.

Það sem hefur valdið vandræðum varðandi kremnotkun í byrjun brjóstagjafar (þá er ekki bara átt við þetta krem heldur ýms feit krem) er að börn renna til í fitunni og eiga þá í vandræðum með að ná réttu gripi og/eða halda því. Af því leiða önnur vandamál eins og sár, léleg mjólkurfærsla ofl.

Þú verður að meta sjálf hvort þú heldur að kremið hjálpi en með þetta ungt barn og í vandræðum með grip þá tel ég tækifæri þitt til að laga ástandið felast í að hætta kremnotkun og þurrka vörtuna vel fyrir gjöf.

Gangi þér vel,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.