Brjóstakrem og plastfilma

11.04.2013
Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Þegar ég var með eldri börnin mín á brjósti var mér ráðlagt af reyndri ljósmóður að nota brjóstakrem eftir hverja gjöf (hvort sem voru sár eða ekki) og að setja plastfilmu yfir til að hlífa vörtunum. Nú geng ég með 3. barnið mitt og hef verið að lesa mér til hérna á síðunni um brjóstagjöf til að rifja þetta allt saman upp og hér talar brjóstagjafaráðgjafi gegn því að nota brjóstakrem á vörturnar og þá bæði þegar eru sár og eins þegar ekki eru sár þar sem það getur búið til vandamál (að barnið taki þá ekki brjóstið rétt vegna þess að það renni til á vörtunni). Er þetta eitthvað nýtt sem verið er að ráðleggja eða eru bara skiptar skoðanir um notkun þessa krems? Og eins með plastfilmuna, gæti það verið að búa til vandamál? Og eitt enn hvaða skoðanir hafið þið á sílikon lekahlífum sem heita mamma pads (fást í móðurást) og eiga að virka eins og dyrabjölluaðferðin, sem sagt að þrýsta á vörtuna og þannig að koma í veg fyrir leka t.d á nóttunni?
Sæl og blessuð!
Já, ráðleggingar sem veittar eru við brjóstagjöf eru í sífelldri þróun í samræmi við rannsóknir og reynslu brjóstagjafaráðgjafa. Það er alveg rétt hjá þér að áður var um aðrar ráðleggingar að ræða en nú. Þú átt góða brjóstagjöf í vændum þegar þú notar nýjar ráðleggingar. Ekki nota nein krem nema raunveruleg ástæða kemur fram(t.d. sýkingar). Reyndu að fá góða kennslu í að leggja rétt og sársaukalaust á brjóst. Ef vörtur verða aumar eða sárar er notað vatn til að bleyta vörtu fyrir gjöf. Plastfilma yfir vörtu er stundum notað ef sár eru á toppi vörtu. Varðandi silikon lekahlífar þá eru þær notaðar þegar um mikinn mjólkurleka að nóttu er að ræða. Þær hjálpa stundum. Einnig í stöku tilfellum þegar tryggja þarf að ekki leki undir fínum fötum.


Með bestu kveðjum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. apríl 2013