Spurt og svarað

03. febrúar 2010

Bólusetning við lifrarbólgu A

Góðan dag!

Ég vildi fá að spyrja út í bólusetningu við lifrabólgu A á meðgöngu. Ég er búsett í Svíþjóð og var að hugsa um að fara til Tælands þegar ég verð komin 21 viku á leið. Ég hafði samband við bólusetningarmiðstöð hér þar sem mælt var með því að ég fengi bólusetningu við Lifrabólgu A áður en ég færi. Þeir héldu því fram að það væri óhætt barnshafandi konum. Getið þið gefið mér ráðleggingu hvort það sé óhætt að fá þetta bóluefni á meðgöngu?

Takk takk, Erla.


Sæl Erla!

Á vef Lyfjastofnunar eru upplýsingar um notkun bóluefnisins HAVRIX sem notað er til bólusetningar við Lifrarbólgu A hér á landi. Þar segir að upplýsingar um notkun lyfsins hjá þunguðum konum séu takmarkaðar og rannsóknir á áhrifum þess á æxlun hjá dýrum hafi ekki verið gerðar. Hætta fyrir fóstrið er þó álitin hverfandi, eins og á við um öll deydd veirubóluefni en þó ætti aðeins að nota HAVRIX á meðgöngu sé þess augljós þörf.

Það þarf alltaf að vega og meta hvort ávinningur af lyfjagjöf vegi upp áhættuna. Ef hættan á því að smitast af lifrarbólgu A er mikil á því svæði sem þú ætlar að ferðast til er ávinningurinn örugglega meiri en áhættan. Þetta þarft þú að meta í samráði við lækni eða ráðgjafa á bólusetningarmiðstöðinni þarna úti.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. febrúar 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.