Spurt og svarað

27. nóvember 2004

Brjóstakýli

Hæ, hæ og takk kærlega fyrir æðislegan vef.

Ég er komin 25 vikur á leið og farin að kvíða rosalega fyrir að hafa ófædda barnið mitt á brjósti. Ég hef mjög slæma reynslu af brjóstagjöf þar sem ég fékk svakalegar stíflur og ígerð í annað brjóstið þegar ég var með son minn á brjósti. Eftir að hafa farið í aðgerð á brjóstinu til að losa um stífluna og ígerðina þá gekk brjóstagjöfin mjög vel en það var sem sagt bara byrjunin sem var algjört horror. Er eitthvað sem ég get gert til að hindra að þetta endurtaki sig. Svo er annað. Í gær var ég frekar slæm í öðru brjóstinu og fór úr til að kíkja á það. Þá finnst mér eins og ein bólan, eða hvað það nú heitir sem er umhverfis geirvörturnar sé miklu stærri en hinar svo ég fór eitthvað að
fikta aðeins í henni og þá kemur út það sem leit út fyrir að vera gröftur. Eftir að hafa losað þetta úr fór mér að líða betur og bólan varð eins og hinar. Er þetta alveg eðlilegt eða var þetta kannski alls ekki gröftur sem kom þarna út.

Með von um svör.

Sæl og blessuð.

Það er slæmt að þú skulir kvíða brjóstagjöfinni svona mikið. Ég vona að eitthvað sem ég útskýri geti hjálpað en það er auðvitað aldrei hægt að fullyrða að nú muni allt ganga eins og í sögu.
Þú hefur lent í einu af því alversta sem konur geta lent í í brjóstagjöf en það er að fá brjóstakýli. Það eru alltaf nokkrar konur á ári hverju sem fá þetta en það telst þó sjaldgæft miðað við allan þann fjölda kvenna sem er með börn á brjósti á hverjum tíma. Að lenda í þessu aftur er náttúrlega enn sjaldgæfara. Það er mjög jákvætt sem þú gerðir en það var að halda brjóstagjöfinni áfram eftir aðgerðina. Það eru minni líkur á að konur sem gera það fái þetta aftur. Þannig að tölfræðilega eru afar litlar líkur á að þú lendir í þessu aftur.

Yfirleitt er ferillinn sá að fyrst myndast brjóstastífla sem of seint er meðhöndluð eða ekki rétt. Þá þróast hún yfir í brjóstabólgu og í einstaka tilfellum þróast hún svo áfram yfir í brjóstakýli. Það er ýmislegt sem þú getur gert til að koma í veg fyrir að fá brjóstastíflur. Það er t.d. að nota breytilegar gjafastellingar, passa að ekkert þrengi að brjóstunum og passa að fara ekki í offramleiðslu. Það skiptir svo sköpum að bregðast fljótt við brjóstastíflum og meðhöndla þær á réttan hátt. Nýmynduð brjóstastífla hverfur í nokkrum gjöfum ef rétt er brugðist við. Síðan ef brjóstastíflan fer að gefa frá sér merki sýkingar (hár hiti, aumur, rauður hnútur í brjósti) þá getur líka haft úrslitaþýðingu að byrja fljótt á réttum sýklalyfjum, í réttum skömmtum og klára skammtinn. Þannig að þetta er löng leið sem hægt er að grípa inn í á mörgum stöðum. Ef lítið brjóstakýli myndast er ekki einu sinni alltaf nauðsynlegt að skera í brjóstið. Stundum er hægt að stinga nál í kýlið og draga gröftinn út. Það má heldur ekki gleyma þætti barnsins í þessu. Öll börn sjúga misjafnlega og ef þú færð barn sem sýgur kröftuglega og fær óhindraðan aðgang að brjóstunum þá sér það um að halda svona vandamálum í burtu.

Varðandi seinni fyrirspurn þína þá ertu að tala um Montgomery kirtla sem eru á vörtubaugum. Þeirra hlutverk er að framleiða fituefni sem á að smyrja vörtubaug og halda honum mjúkum. Starfsemi þessara kirtla fer í gang á meðgöngu og því stækka þeir. Þeir geta stækkað mismikið og líka hálfstíflast sem gerir ekkert til. Það er aðalatriðið að láta þá eiga sig með sitt sérhæfða hlutverk. Það er alltaf hægt að kreista út úr þeim fituefni. En ef maður fer að gera það endurtekið þá hvetur maður kirtilinn til að framleiða sífellt meira og við það stækkar hann óeðlilega mikið, þannig að slepptu því endilega.

Með von um að svörin hjálpi, Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.