Brjóstaminnkanir og brjóstagjöf

24.08.2005

Hæ hæ.  Ég er búin að fara í tvær brjóstaminkanir og var sagt að mjög litlar líkur væru á því að ég gæti verið með barn á brjósti, en nú er ég ólétt af mínu öðru barni og tók eftir því að broddur kemur úr brjóstunum.  Þýðir það að ég geti verið með barnið mitt á brjósti?  Eða kemur broddur þó svo að engin mjólk myndist eftir fæðingu?

...................................... 

Sæl og blessuð.

Ég veit náttúrlega ekki hvaðan þú hefur þær upplýsingar að mjög litlar líkur væru á að þú gætir haft barn á brjósti.  Það er sjaldgæft nú orðið að konur getir ekki haft á brjósti eftir brjóstaminnkun og jafnvel þótt þær séu tvær. Þetta byggist þó á ýmsum atriðum: Ef mjög langt er síðan þú fórst í aðgerðirnar þannig að þær hafi verið gerðar með gamla laginu eru minni líkur á brjóstagjöf. Eins ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í aðgerðunum eða eftir þær og læknirinn sem framkvæmdi þær telur að þau atriðið komi í veg fyrir brjóstagjöf.  Að öðru leyti ert þú í sömu sporum og aðrar konur sem farið hafa í þessa aðgerð þ.e.a.s þú getur mjög líklega haft á brjósti að einhverju eða öllu leyti.
Það að broddur kemur úr brjóstunum er auðvitað gott merki eins og hjá öllum öðrum. Það er merki um undirbúning brjóstanna og byrjandi mjólkurframleiðslu. Síðasta spurningin byggist á smá misskilningi. Broddur er mjólk. Þetta er bara orð yfir þá tegund mjólkur sem framleiðist í byrjun og er aðeins öðruvísi samansett en sú mjólk sem kemur seinna. Broddur verður að fullþroska mjólk svo framarlega að brjóstin séu sogin eftir fæðinguna. Ef ekkert sog eða örvun verður hættir hann að framleiðast og eyðist.
Með ósk um gott gengi á meðgöngu, í fæðingu og á eftir.

Katrín brjóstagjafaráðgjafi,
24.08.2005.