Brjóstamjólk á kvöldin

28.11.2009

Sælar!

Takk fyrir góðan og fræðandi vef. Ég er með eina fyrirspurn til ykkar. Ég á stúlku sem er fjögurra og hálfs mánaða gömul. Hún fæddist eftir 35+4 vikna meðgöngu og gekk allt vel. Upp á deild fékk hún ábót í 3 daga en eftir það bara brjóstamjólk. Hún hefur þyngst vel og er í dag búttuð lítil dama (rúmlega 7kg og 62cm). Frá því að hún var tveggja mánaða hefur það komið fyrir annað slagið á kvöldin að ég er "tóm". Undanfarinn mánuð hefur þetta verið á hverju kvöldi. Ég er búin að reyna öll ráðin í bókinni, leggja hana oftar á yfir daginn og fyrri part kvölds, drekka mikið vatn, hvíla mig, taka mjólkuraukandi töflur. Ég hef tekið til þess ráðs að mjólka annað brjóstið á morgnanna og fá þá ca. 100 ml. sem ég gef henni á kvöldin auk þess sem hún drekkur frá mér. Undanfarin kvöld hefur hún vaknað klst. eftir að hún fer að sofa, er þá sársvöng og það er enginn séns að hún vilji brjóstið þar sem lítið er í boði þannig að við höfum stundum gefið henni pínu þurrmjólk og þá nær hún að slaka á og sofna. Hún drekkur svo alla vega tvisvar yfir nóttina. Mín spurning er sú hvort það er eitthvað sem ég er að gleyma sem ég get gert til að sleppa við þessar ábótir á kvöldin?

 


Sæl og blessuð!

Það er mjög algengt að þessi kvöldtími sé erfiður bæði börnum og foreldrum. En það er stundum spurning um að finna rétta „kerfið“ sem virkar fyrir hvert barn. Þessi ráð sem þú hefur notað mætti kannski bæta. Það er til dæmis ekki ráðlegt að drekka meira en þorstinn segir til um. Það dregur úr mjólkurframleiðslu. Mjólkuraukandi töflur hjálpa stundum og stundum ekki. Það eru til mismunandi mjólkuraukandi töflur og kannski í lagi að prófa aðra tegund. Þú nefnir ekki skiptigjöf en það er sú aðferð sem ég tel virka best. En kannski hefurðu notað hana líka. Svo er það þessi tilfærsla á mjólkun sem orkar stundum tvímælis. Það er hugsanlega hægt að nota hana ef næg er mjólkin en það gæti hjálpað að henda þeirri mjólk sem kemur á fyrstu 2 mínútunum og gefa það sem á eftir kemur.

Vonandi hjálpar þetta eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. nóvember 2009.