Spurt og svarað

03. maí 2005

Brjóstamjólk eða soðið vatn við þorsta?

Halló og takk fyrir frábæran vef sem ég hef nýtt mér ofboðslega mikið.

Ég hef verið að lesa á netinu um það hvenær má fara að gefa vatn að drekka og það eru margir að tala um að það megi fara að gefa 2 mánaða gömlu barni soðið vatn til slá á þorsta. Nú spyr ég er ekki bara betra að skella barninu á brjóst ef það er þyrst (ef barnið er á brjósti) framleiðir brjóstið ekki ALLTAF eitthvað fyrir barnið þó það hafi verið ný búið með brjóstin?

Kveðja.

.....................................................................

Sæl og blessuð.

Við ættum ekki að vanmeta hæfileika líkama okkar. Heldurðu ekki að við séum bara með sérhannað vatn fyrir þyrst börn. Formjólkin sem kemur alltaf fyrst í hverri gjöf er sérlega þunn og hennar hlutverk er að slökkva þorsta barnsins. Þannig að í hverri gjöf byrjum við á því að slá á þorstann áður en við förum að gefa „matinn”. Þetta getur verið mjög áberandi á heitum dögum þegar börn eru þyrst. Þá taka þau oft mjög stuttar gjafir eða vilja litlar aukagjafir sem eru byggðar upp mest af formjólk. Svarið við spurningunni liggur því í þínum eigin orðum. Jú, það er betra að skella barninu á brjóst jafnvel þótt stutt sé frá síðustu gjöf. Þessar upplýsingar sem þú vísar í á netinu eru greinilega ekki byggðar á faglegri þekkingu.

Með bestu ósk um heitt og gott sumar og fullt af litlum gjöfum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.