Brjóstamjólk eða soðið vatn við þorsta?

03.05.2005

Halló og takk fyrir frábæran vef sem ég hef nýtt mér ofboðslega mikið.

Ég hef verið að lesa á netinu um það hvenær má fara að gefa vatn að drekka og það eru margir að tala um að það megi fara að gefa 2 mánaða gömlu barni soðið vatn til slá á þorsta. Nú spyr ég er ekki bara betra að skella barninu á brjóst ef það er þyrst (ef barnið er á brjósti) framleiðir brjóstið ekki ALLTAF eitthvað fyrir barnið þó það hafi verið ný búið með brjóstin?

Kveðja.

.....................................................................

Sæl og blessuð.

Við ættum ekki að vanmeta hæfileika líkama okkar. Heldurðu ekki að við séum bara með sérhannað vatn fyrir þyrst börn. Formjólkin sem kemur alltaf fyrst í hverri gjöf er sérlega þunn og hennar hlutverk er að slökkva þorsta barnsins. Þannig að í hverri gjöf byrjum við á því að slá á þorstann áður en við förum að gefa „matinn”. Þetta getur verið mjög áberandi á heitum dögum þegar börn eru þyrst. Þá taka þau oft mjög stuttar gjafir eða vilja litlar aukagjafir sem eru byggðar upp mest af formjólk. Svarið við spurningunni liggur því í þínum eigin orðum. Jú, það er betra að skella barninu á brjóst jafnvel þótt stutt sé frá síðustu gjöf. Þessar upplýsingar sem þú vísar í á netinu eru greinilega ekki byggðar á faglegri þekkingu.

Með bestu ósk um heitt og gott sumar og fullt af litlum gjöfum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.