Brjóstamjólk og járnupptaka

06.12.2006

Hæ, hæ!

Ég er alltaf að heyra að maður eigi ekki að gefa börnum mjólk með mat því að hún getur haft áhrif á járnupptöku líkamans. Hef heyrt að maður eigi að láta einhvern tíma líða frá mat þar til barnið fær mjólk. Það sem ég er að pæla er hvort þetta eigi líka við brjóstamjólkina? Þarf ég að láta einhvern  tíma líða frá máltíð þar til ég gef barninu mínu að drekka? Er brjóstamjólkin og kúamjólkin ekki bara eins og vatn og kók - alveg sitt hvor hluturinn, eða er þetta eiginlega það sama? Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um þetta en er engu nær og er að fá hausverk því að ég pæli svo mikið í þessu :)

Með von um svör!


Sæl og blessuð.

Mér finnst mjög eðlilegt að þú veltir þessu fyrir þér. En eins og þér sjálfri er búið að detta í hug erum við að tala um 2 ólíka hluti. Þegar tekið er inn járn er ekki heppilegt að drekka mjólk með því fría járnið getur þá bundist efnum úr mjólkinni og orðið óvirkt. Í brjóstamjólkinni er hins vegar járnið á heppilegu formi og nýtist mjög vel. Það má alveg drekka brjóstamjólk með öllum mat og með járninntöku ef út í það er farið. Það binst afar lítið.       

Vona að þetta skýri málið.  

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. desember 2006.