Brjóstamjólk og tennur

16.08.2009

Sælar ljósmæður og kærar þakkir fyrir fróðlegan vef!

Mig langar að vita hvort sæta brjóstmjólkin okkar geti skemmt tennur barnanna. Ég er enn með 18 mánaða dóttir mína á brjósti og hún drekkur eftir að við burstum á kvöldin og svo aftur um nóttina eða undir morgun. Er mikill sykur í brjóstamjólk? Eða e-r önnur efni sem geta skemmt glerung tannanna?

Kær kveðja, Alma.

 


Sæl og blessuð Alma!

Jú, brjóstamjólkin er sæt en hún er samt ekki mikið skemmandi fyrir tennur. Hún hefur heldur ekki sýrur eins og ávaxtasafar sem skemma glerung. Svo er það sem er hagstætt en það er að brjóstamjólk fer í munninn mun innar en ef drukkið er á annan hátt. Hún leikur því ekki mikið um tennur barna sem eru mjög framarlega í munninum.

Með kveðju.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. ágúst 2009.