Spurt og svarað

30. september 2012

Brjóstamjólk sem skemmist strax

Sæl!
 Ég er í miklum vandræðum með geymslu á brjóstamjólk. Ég á tveggja ára strák og þegar hann var á brjósti mjólkaði ég mig stundum og setti í frystinn til að eiga. Ég hætti því þó fljótlega því strákurinn gubbaði alltaf mjög mikið eftir að hafa drukkið frystu mjólkina. Á endanum smakkaði ég á henni og þá reyndist vera viðbjóðslegt bragð af henni, ekki ósvipað og einhver hefði ælt út í mjólkina. Þó var mjólkin ekki búin að vera mánuð í frystiskáp með sérhurð. Núna er ég búin að eignast annað barn sem fæddist léttburi og ræður ekki alveg við að drekka það sem hún þarf úr brjóstinu í gjöfinni svo ég fer í mjaltavél eftir hverja gjöf og hún fær brjóstamjólkurábót. Ég hef ekki enn prófað að frysta mjólkina heldur geymi hana í ísskáp. Í morgun tók ég úr ísskápnum mjólk sem ég mjólkaði í gærmorgun og var þá komið smávegis "ælubragð" af henni líka. Hvað get ég gert? Ég set mjólkina í sérstök plastílát fyrir brjóstamjólk sem ég passa vel upp á að þrífa vel og sjóða á milli áfyllinga. Ég var með gamlan ísskáp þegar ég átti fyrra barnið en er komin með glænýjan ísskáp núna. Geymist mjólkin mín bara extra illa? Það er ótrúlega svekkjandi að leggja í alla þessa mjaltavinnu til þess eins að mjólkin skemmist löngu áður en hún ætti að gera það samkvæmt öllum viðmiðum þannig að mig langar endilega að finna einhverja lausn.  
Ég gleymdi að taka fram að ég er með Raynauds í geirvörtunum. Síðast tók ég kalk, magnesíum, b6 og lýsi við því með engum árangri. Nú er ég komin á Adalat og var að byrja fyrir 2-3 dögum að taka vítamínin líka með og finnst eins og þetta með vonda bragðið hafi byrjað á svipuðum tíma. Geta vítamínin haft þessi áhrif á mjólkina?
Með bestu kveðju!

Sæl og blessuð!
Það eru nokkuð margar konur sem kvarta yfir þessu geymsluvandamáli. Það eru ákveðin efnahvörf sem verða í mjólkinni sem valda þessum bragðbreytingum. Oftast er þetta það lítið að það skiptir ekki máli og börnin kvarta ekki yfir þessu. En stundum er þetta mikið og veldur vandræðum. Það er ekki vitað hvað veldur því að þetta sé mikið eða lítið(en margar kenningar). Það er ótrúlegt að vítamínin valdið þessu en ekki hægt að útiloka það þó. Ráð sem ég hef heyrt við vandamálinu eru: Að geyma mjólkina eins stutt og hægt er. Að skipta mjólkinni í ílát, formjólk í eitt og eftirmjólk í annað. Að skilja mjólkina með vindu. Að hita mjólkina nálægt suðu og kæla svo aftur.
Vona að þetta hjálpi eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. september 2012.
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.