Spurt og svarað

08. maí 2006

Brjóstamjólk, grautar, handmjólkun

Komið þið sælar.

Ég er mamma tæplega 6 mánaða drengs sem hefur hingað til bara fengið brjóstið og ekkert annað. Nú er ég farin að huga að því að kynna graut fyrir honum en ætla mér ekki að gefa honum aðra mjólk en brjóstamjólkina enn sem komið er. Ég hef aldrei pumpað mig (á ekki pumpu) en nú langar mig að safna mjólk út í grautinn handa honum og er með nokkrar spurningar:

  • Hvernig er best að handmjólka sig?
  • Á hvaða tíma dags ætti ég helst að mjólka mig?
  • Er kannski mikið betra að nota pumpu?
  • Hversu lengi má ég geyma brjóstamjólkina í frysti?
  • En í ísskáp?

Svo langar mig líka að spyrja út í matinn. Nú stefni ég að því að hafa barnið lengi á brjósti, allavega eitt ár og helst bara eins lengi og barnið vill. Ætti mjólkin ekki að duga sem aðalnæring talsvert lengur? Er ekki skynsamlegt að gefa krílinu brjóstið fyrst og svo graut á eftir frekar en að taka gjöf út fyrir grautinn? Mælið þið með að ég fækki gjöfum markvisst eða gerist það kannski eðlilega eftir því sem ég fer að gefa lillanum oftar annan mat? Hvenær fer barnið að þurfa annan vökva en mjólkina t.d. vatn?

Bestu kveðjur og þakkir, Vala.


Sæl og blessuð Vala.

Brjóstamjólkin dugar sem aðal (eingöngu) næring út fyrsta árið ef móðirin er vel nærð og barnið fær lýsi og járn aukalega. Einhvern tíma eftir 6 mánaða aldurinn er þó venjan að byrja að kynna aðra næringu fyrir barninu. Það er meira til að kynna því hvernig á að borða fasta fæðu og færa það nær fullorðins hegðun. Ekki að það sé svo nauðsynlegt næringarlega séð.

Ég er ekki mikill talsmaður grauta og tel 6 mánaða börn eiga að fá eitthvað bitastæðara eins og stappað grænmeti eða ávexti. En ég get alveg viðurkennt að grautar eru ósköp þægilegir fyrir móðurina. Ef þú vilt hræra graut út í mjólkinni þinni er einfaldast fyrir þig að handmjólka þig í bolla eða skál og hræra svo duft útí þar til passlegri þykkt er náð. Og ekki hafa hann of þunnan. 6 mánaða börnum finnst ekkert gaman að fá eitthvert lap.

Það er best fyrir þig að handmjólka þig með því að kreista saman svæðið rétt fyrir aftan vörtuna. Vertu þolinmóð, það kemur lítið fyrst. Það skiptir ekki máli hvenær dagsins þú mjólkar þig en mörgum gefst vel að gera það fyrri hlutann. Í ísskáp geturðu geymt brjóstamjólk í 8 daga en í frysti nokkrar vikur eða mánuði eftir því hve góður frystirinn er.

Ef þú ætlar að byrja afvenjun af brjósti þá tekurðu út gjafir, annars ekki. Maður gefur graut fyrst og svo brjóst því annars vilja þau ekki grautinn. Og síðasta spurningin varðandi annan vökva. Fljótlega eftir að barn byrjar að fá aðra næringu en brjóstamjólk er í lagi að byrja að bjóða þeim vatn úr stútkönnu eða af barmi en það er oft þannig að þau eru lítið spennt. Það er líka allt í lagi. Þau fá þann vökva sem þau þurfa úr mjólkinni og úr matnum (og í baðinu).

Vona að spurningum þínum sé svarað. 

Sjá einnig; Geymsla brjóstamjólkur 

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.