Spurt og svarað

27. desember 2006

Brjóstamjólkurábót úr pela

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef!

þannig er mál með vexti að ég á strák sem er orðin 4 og ½ mánaða og er eingöngu á brjósti og það gengur mjög vel. Hann dafnar mjög vel og í þriggja mánaða skoðuninni var hann rétt tæp 7 kg og tútnar bara út. Hann sefur alla nóttina og hefur alltaf gert u.þ.b. frá 22-10. En núna undanfarnar 2-3 vikur þá virðist brjóstið ekki vera nóg á kvöldin. Það er eitthvað um astma og ofnæmi í fjölskyldunni minni þannig að ég er mjög ströng á að gefa honum ekkert nema brjóstamjólk fyrstu 6 mánuðina. Ég tók því upp á því að mjólka mig á hverjum morgni, svo drekkur hann brjóst allan daginn og örar á kvöldin, svo fyrir nóttina drekkur hann bæði brjóstin og svo gef ég honum um 120-140 ml ábót af brjóstamjólk úr pela (sem ég mjólkaði um morguninn). Ég veit að mjólkin er feitari seinni partinn en þetta virðist nú duga yfir nóttina.

Spurning mín er sem sagt; Er ég að gera eitthvað slæmt með að gefa honum pela eftir að hann er búinn að drekka úr brjóstunum? Er algengt að á þessum aldri þurfi þau meira á kvöldin? Er ekki betra að ég mjólki mig og gefi honum það á kvöldin heldur en að þurfa að gefa honum þurrmjólk?

Með fyrirfram þökk, kveðja unga mamma.


Sæl og blessuð unga mamma.

Já, það mjög algengt að brjóstabörn vilji sjúga meira á kvöldin. Það er í raun ekki að þau þurfi meiri mjólk þá heldur er samsetning mjólkurinnar önnur og þau þurfa að beita öðru mynstri til að ná henni. Þau drekka styttra og oftar en inn á milli koma langar gjafir. Þetta mynstur gefur þeim nákvæmlega það sem þau þurfa þótt það geti litið vöntunarlega út. Þetta sem þú gerir, sem sagt að mjólka fyrripart til að gefa seinnipart er í mínum augum hrein tilfærsla á gjöfum og bara aukavinna. Hins vegar finnst mér að ef þetta virkar fyrir þig þá sé það náttúrlega í góðu lagi. Það finnur hver móðir sinn takt í þessu. Ef það gengur upp þá er það vel. Það er að sjálfsögðu betra að hafa þennan háttinn á heldur en að gefa þurrmjólk og það er ekkert slæmt að gefa stöku pela á þessum aldri ef að þarf að gefa aukagjafir.         

Með góðum óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.