Brjostamjólkurgula

13.08.2006

Sælar!  Þetta er frábær síða, hef lært mikið af lestri hér!!

Málið er að ég er með 7 vikna barn sem fékk gulu rétt eftir fæðingu og fór í ljós útaf því.  Svo í 6 vikna skoðun var athugað með gulu og líklega er hann nú með brjóstarmjólkurgulu og mér bent á að hætta að gefa honum þurrmjólk í sólarhring og mjólka mig á meðan og þá eigi að sjást strax hvort þetta sé örugglega bjóstarmjólkurgula.  Nema hvað eftir mikla áherslu á mikilvægi brjóstamjólkur (hefur gengið vel hjá mér) og þá staðreynd að margar konur í minni ætt hafa ekki getað verið með á brjósti nema í nokkrar vikur þá hika ég við þetta og þori varla ef mjaltir mistakast og mjólkin hverfur!
Semsagt til að fá annað álit á málinu spyr ég hvort annar möguleiki á að
komast að þessu, hvort þurrmjólk og mjaltir séu alveg nauðsynlegar???

Þúsund fyrirfram þakkir!!
Guðrún
Sæl og blessuð Guðrún.

Brjóstamjólkurgula er reyndar nokkuð umdeilt fyrirbæri innan brjóstagjafafræðinnar.  Einn góður forystumaður fræðanna kallar þetta: Ekki nóg brjóstamjólk(ur) gula. Hann vill meina að barn með svo langvarandi gulu sé ekki að fá næga brjóstamjólk og það komi fram með þessari gulu. Flestir eru þó sammála um að þetta sé saklaus útgáfa af gulu í flestum tilfellum sem rjátlist af börnum með tímanum.  Þessi meðferð sem felst í að taka börn af brjósti í 1 eða fleiri sólarhringa endar alltaf með því að barnið fer aftur á brjóst. Þá er erfitt að skilja tilganginn. Hverju skilaði það að taka barnið af brjósti öðru en óþægindum fyrir móðurina og ruglingi á sogi fyrir barnið. Það eru þekkt dæmi um að börn hafi hafnað brjóstinu eftir meðferðina og mæðurnar setið í sárum eftir. Það er alveg ljóst að þurrmjólk læknar ekki guluna.  Að sjálfsögðu sýnir barn sem hefur fengið litla brjóstamjólk bata ef það fær allt í einu mikla þurrmjólk en það myndi barn líka gera sem allt í einu fengi mikla brjóstamjólk.
Ég myndi ráðleggja þér að komast að því hversu mikið þú mjólkar barninu, fjölga gjöfum þess og reyna með öllum ráðum að koma meiri brjóstamjólk í það. Ef um of litla mjólk reynist vera að ræða þarftu að vinna upp meiri mjólk með aukinni örvun og jafnvel mjalta brjóstin aukalega til að geta gefið barninu í viðbót.
Vona að þetta hjálpi.       
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
13.08.2006.