Brjóstapumpun

05.02.2006

Sæl, ég er með eina 6 vikna sem hefur alltaf verið dugleg að drekka og er það svo sem enn, en nú ætlaði ég að fara að safna smá mjólk í frysti og er með Avent handpumpu, en mér finnst svo lítið koma!? Ég hef prufað að "safna" í annað brjóstið yfir nótt og þá náði ég aðeins 80 ml. og það er það allra mesta sem ég hef náð, oftast er það nú samt ekki nema 40-50ml. og ég reyni að kreista úr þeim alveg eins og ég get, það tekur yfirleitt amk. 20 mín.  Þá langar mig að spyrja hvort að stelpan nái meira úr brjóstunum en ég með handpumpunni, og munar það miklu? Hún fæddist 3.760 gr. og er  í dag 4.400 og núna síðustu 3 vikur hefur hún verið að þyngjast mjög hægt- getur verið að hún sé ekki að fá næga mjólk...ég þarf oft að gefa henni bæði brjóstin í gjöf því þegar hún er alveg búin að tæma annað, grætur hún bara og vill fá meira, og verður í raun ekki sátt fyrr en hún er búin að fá fyrstu "gusuna" úr seinna brjóstinu!?


p.s takk fyrir frábæran vef, hann hefur nýst mér mikið


.............................................

Sæl og blessuð!

Til hamingju með barnið þitt! Þegar maður mjólkar sig með mjólkurpumpu í fyrsta sinn, er algengt að það komi ekkert voða mikið í einu. Ekki láta hugfallast, þetta er ekki skammturinn sem barnið myndi annars vera að fá í fullri gjöf hjá þér. Annars er 40-50 ml. ekkert svo lítið. Það er hægt að safna oftar yfir daginn og bæta við hina mjólkina, passaðu samt að geyma mjólkina í kæli og frysta svo það sem þú hefur safnað yfir daginn ef þú ætlar ekki að nota það strax. Þú getur lesið um leiðbeiningar við mjólkun með pumpu hér á síðunni. Það er að finna í brjóstakorni vikunnar og heitir Mjólkun með mjaltavél.

Hinsvegar ertu líka að velta fyrir þér hvort hún sé að fá nóg og þú segir að hún hafi verið að þyngjast hægt. Það er mikilvægt að gefa eins oft og barnið vill drekka, jafnvel bjóða oftar og gefa endilega bæði brjóstin ef þörf er á. Með öðrum orðum, leyfa henni að drekka eins og hún vill. Það er líka voða gott að hafa ekki mikinn eril, fá aðra til að hjálpa þér, leggja þig á daginn og borða reglulega. Sumum finnst  það hjálpa að drekka mjólkuraukandi te, það sakar ekkert að reyna það. Það er líka gott að ræða þetta við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni og það eru líka starfandi brjóstagjafaráðgjafar á mörgum heilsugæslustöðvum sem þú getur leitað til. 

Gangi þér vel!

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi.
05. febrúar 2006.