Spurt og svarað

31. maí 2005

Brjóstapumpuvandræði

Ég er svo óheppin að ég neyðist til að fara að vinna strax að hluta til og barnið mitt er bara 3. vikna.  Hann hefur tekið brjóstið vel og dafnað vel, þyngst eðlilega, en síðustu daga hefur hann verið óværari og virðist ekki endilega vera sáttur eftir að ég gef honum.  Ég var að kaupa brjóstapumpu til að mjólka mig svo aðrir geti gefið honum meðan ég vinn, en þegar ég prófaði hana, þá kom ekki nein mjólk, bara örfáir dropar, reyndi í 15 mínútur. Þetta er tvöföld rafmagnsvél.  Var að spá hvort að ég sé kannski búin að missa mjólkina mína, hef reyndar aldrei séð ummerki um mjólk hjá mér, nema það sem kemur upp úr honum, þ.e. það lekur aldrei sjálfkrafa úr brjóstunum. Svo var ég líka að spekúlera hvort að ef mér tekst ekki að nota pumpuna, ég neyðist til að láta þá sem passa gefa honum mjólkurduft í staupum, er það óhætt svona snemma með brjóstamjólkinni ef ég passa að gefa honum ekki úr pela?

Ein alveg í vandræðum.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

 
Það er óhætt að segja að þú ert óheppin að þurfa að fara að vinna strax. Í mínum augum er það meira en óheppni. Það er brot á manréttindum. Ekki bara þínum heldur líka barnsins. En þótt rafmagnspumpan hafi ekki virkað í eitt skipti er ekki alveg að marka. Það getur tekið nokkur skipti að komast upp á lag með þetta. Reyndu endilega aftur. Það getur hjálpað að kreista svolítið geirvörturnar með puttunum fyrst. Fremst á vörtubaugnum, nokkrum sinnum á sama staðnum og færa puttana þá aðeins til og kreista aftur nokkrum sinnum o.s.frv. allan hringinn. Svo skaltu bleyta vörtuna, skella mjaltaskildinum á og passa að hafa ekki of mikinn þrýsting. Slaka svo á í a.m.k. 10 mín og hugsa um barnið og ár og læki á meðan. Fyrstu skiptin koma kannski bara nokkrir dropar en fljótlega ætti magnið svo að aukast. Ef þér finnst þetta ekkert ganga ættirðu að fá einhvern til að hjálpa þér með vélina. Athuga hvort allt er rétt saman sett og virki. Það gæti verið um einhverja bilun að ræða. Það eina sem er öruggt í málinu ert þú. Það er ekkert bilað í þér. Mjólkin fer ekkert, eyðist eða hverfur. Hún er til staðar eða réttara sagt hæfileikinn til að framleiða hana þú þarft bara að finna réttu aðferðina til að lokka mjólkina út úr brjóstunum. Láttu þér ekki til hugar koma að gefa barninu þurrmjólk. Barnið er alltof ungt til þess sérstaklega þegar næg brjóstamjólk er  til staðar. En þú þarft að finna réttu aðferðina fyrir fólkið sem passar barnið að gefa því mjólkuðu brjóstamjólkina þína. Það mætti vera úr teskeið, staupi eða sprautu. En sumir treysta sér ekki í það. Margir af eldri kynslóðinni eru vanir pelum og vilja helst gefa þannig. Þannig að kannski þarf þetta eitthvert samkomulag fleiri aðila.

Vona að vel gangi og úr rætist með vélina,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.