Brjóstaskeljar

24.05.2006

Ég vil byrja á að þakka fyrir frábæra síðu, ég hef notað hana mikið það sem af er meðgöngu minni vegna nánast stanslausra veikinda.

Ég hef fengið mikla hjálp frá frænkum sem gengið hafa í gegnum þetta sama og ein gaf mér danskar skeljar sem eiga að hjálpa ef maður fær stálma. Þær virka þannig að maður á að sjóða þær fyrst og kæla svo. Þær eru svo lagðar á geirvörturnar og smá mjólk kreist fram og svona á þetta að liggja einhverja stund.

Mig langar að vita hvort þetta séu einhver þekkt vísindi eða bara enn eitt kellingaráðið' sem maður fær að heyra á þessum tíma?Sæl og blessuð.

Það er slæmt ef að á þig herja stanslaus veikindi og ég vona að þú fáir hjálp í þeim.

Olnbogaskeljar (úr fjörunni) hafa verið notaðar í mörg ár á Norðurlöndunum við sárum vörtum. Þær eru ekki notaðar við stálma. Það fer misjöfnum sögum af virkninni og það eru mér vitanlega ekki til neinar vísindalegar sannanir fyrir að þær lagi sárar vörtur. Í mínum huga geta þær hlíft sárum vörtum við ertingu frá umhverfi líkt og plastfilma sem við notum gjarnan en ég get ekki séð að það sé gott að láta mjólk liggja á vörtunni.

Vona að þetta svar hjálpi eitthvað.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. maí 2006.