Brasilískt og aflitun

15.03.2015

Hæ hæ, takk fyrir frábæran vef! Ég er komin um 23 vikur og var að pæla í því hvort það væri ekki alveg í lagi að fara í brasilískt vax? Og þegar það er kannski lengra liðið á meðgönguna? Eins var ég að hugsa útí það að ég er vön að fá mjög dökk hár á magann og hef aflitað hárin þar áður. Er í lagi að aflita hárin á maganum á meðan ég er ólétt? Takk kærlega!

 
 Sæl og blessuð, það eina sem mælir á móti því að fara í brasilískt vax er að það eykur aðeins sýkingarhættu og einnig hættu á inngrónum hárum og sýkingum í kring um þau. Þú verður því sjálf að vega og meta hvað er ráðlegt að gera. Varðandi það að aflita hárin þá vitum við ekki hvaða efni eru í aflitunarvökvanum og því væri ef til vill ráðlegra að plokka bara hárin í burtu (eða raka) eða bara hafa þau. Þetta er mjög algengt meðal kvenna og ekkert til að skammast sín fyrir. Gangi þér vel.


Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
15. mars 2015