Spurt og svarað

15. september 2007

Brjóstastíflur, sveppasýkingar og

Ég á 2 mánaða gamlan son og er hann annað barnið mitt. Brjóstagjöf gekk með fyrsta barn eins og í sögu. Þegar seinni sonur minn var 2 vikna fékk hann sveppasýkingu, sem ég fékk síðar í geirvörturnar, ég er nokkuð laus við hana núna en hann er ennþá með hana í munni. Hef verið að gefa honum Mycostatin í munninn og Dactacort í nárann þar sem hann varð líka slæmur. Kremið í nárann virkaði strax en hann er ennþá með í munni. Barnalæknir benti mér á að prófa fjólubláa munnangurs meðalið sem virkar ágætlega en mig langaði aðallega að spyrja hvort sveppasýking og brjóstastíflur tengist eitthvað? Núna er ég er búin að vera með frekar mikla stíflu í 4 daga, hún hefur aðeins skánað en er alls ekki farin og langt því frá en ég er ekki lengur með 39,5 og kuldahroll en ég er með nokkrar komur, hausverk, augnverk, roða á húð þar sem hnútar eru. Alltaf þegar ég gef brjóstið (hægra) set ég fyrst heitan bakstur nudda í hringi við gjöf, hef skipt um stellingar (ligg núna yfirleitt með son minn í rúminu og gef brjóstið annað hvort sem efra eða neðra brjóst), farið úr gjafahaldara enda fannst hann meiða mig og set svo kaldan bakstur á eftir gjöf. Þar sem þetta var ekki að virka alveg prófaði ég Lecithin enda var bent á það í einu svari frá á síðunni ykkur í sambandi við stíflur í brjósti. Tek 4 sinnum 1200 mg á dag eða 1 töflu 4 sinnum. Hversu lengi má ég taka þetta? Á ég að sleppa því að taka þá Pregnacare vítamínið sem ég tek einnig þó svo að  mælt er með að taka það á meðan á brjóstagjöf stendur?

Takk fyrir alla aðstoðina í gegnum vefinn, hefur verið mjög hjálplegt.

Bestu kveðjur, B.


Sæl og blessuð B.

Það getur stundum verið snúið að ráða niðurlögum sveppasýkinga í brjóstagjöf. Aðal reglan er að meðhöndla alltaf samtímis báðar vörtur og munn barnsins en ekki bara einn eða tvo staði í senn. Snertingin er það mikil og ör að þetta vill endursmitast aftur og aftur. Það er ekki mögulegt að ráðleggja frekar um lyf, skammta eða tíma nema skoðun fari fram á undan. Lyfin sem þú hefur notað eru góð og gild en það er ýmislegt annað sem gæti þurft að athuga. Það er umdeilt hvort tengsl eru milli sveppasýkinga og brjóstastíflna en stíflu í brjósti þarf að sinna markvisst og ekki sætta sig við ef hún verður langvarandi. Þú virðist hafa verið að gera allt samkvæmt bestu getu en þú gætir kannski þurft frekari aðstoð. Þú mátt alveg taka Lesitín vikum saman og það kemur vítamíntöku í sjálfu sér ekkert við. Þú mátt taka inn þau vítamín sem þú vilt en lestu utan á glösin og passaðu þig að fara ekki fram úr ráðlögðum dagskömmtum á fituleysanlegu vítamínunum. Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.    

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. september 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.