Brjóstavandamál

16.08.2009

Ég er með 4 vikna gamla stelpu sem hefur verið að taka brjóst mjög vel og allt hefur gengið vel. Hún hefur verið dugleg að drekka. En hún er nýlega farin að taka upp á því að taka sig af brjósti og á í erfiðleikum að taka vörtuna aftur. Er orðin mjög mikill klaufi að taka brjóst og eins og hún finni ekki geirvörtuna. Hún grætur bara og það gengur mjög illa að láta hana drekka ? Hvert er vandamálið?

 


Sæl og blessuð!

Það er reyndar ýmislegt sem kemur til greina sem orsök fyrir þessu vandamáli. Það vantar aðeins meiri upplýsingar. Það sem kemur fyrst upp í hugann er að það vanti upp á stuðning við barnið í gjöfinni eða að hún sé hreinlega sogvillt. Ef hún er nýlega farin að fá snuð eða hefur fengið það einhvern tíma þá er þetta mjög einkennandi hegðun fyrir barn sem er orðið ruglað í ríminu. Þetta kemur stöku sinnum fyrir þótt börn séu orðin nokkurra vikna og getur alveg verið jafn erfitt við að eiga eins og þegar það kemur fyrir á fyrstu 3 vikunum. Þannig að það sem ég ráðlegg þér er að taka snuðið af barninu og reyna að styðja betur við það í gjöfum.

Vona að vel gangi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. ágúst 2009.