Brjóstaverkfall

15.08.2014

Hæhæ!

Takk fyrir frábæran vef. Ég notaði hann mikið á meðgöngu og fyrst til að byrja með. Ég á stúlku sem er fædd um miðjan mars og hefur brjóstagjöfin gengið vel. Hún hefur alltaf verið bara á brjósti. Ég hef pumpað mig af og til og sett í frysti og þá hefur hún fengið stútkönnu/pela, en örsjaldan. Sem betur fer var ég búin að lesa mér til um brjóstaverkföll en hún hefur tekið þó nokkur síðan hún fæddist. Ég mjólka nóg og hef alltaf gert Hún er almennt róleg og góð en tekur stundum þessi verkföll sem standa oftast í 3-5 daga. Þetta er ótrúlega þreytandi því það er mjög erfitt að ná henni niður og hún sefur styttra því hún drekkur væntanlega ekki nægju sína. Ég hef ekki getað tengt þetta við flutninga, andlegt ástand eða neitt svoleiðis hingað til. Núna virðist hún samt sem áður vera að taka tennur og er búin að vera mjög erfið seinustu daga. Ég veit að þetta er tímabundið ástand en hvað get ég gert til að hjálpa þessu að ganga yfir? Ég hef reynt húð við húð, fara með hana í bað, mikið kúrt, gefið í mismunandi stellingum, gefið þegar hún er sofandi. Hún verður svo pirruð og drekkur sennilega ekki nóg því það er margt að skoða í kringum sig. Hún er mjög úrill. Hvað get ég gert til að koma í veg fyrir þessi endalausu brjóstaverkföll. Ég vill ekki hætta með hana á brjósti. Á ég að gefa henni ábót þegar hún tekur ekki brjóst eða á ég að bíða eftir að hún gefi sig bara og taki brjóstið?
Sæl og blessuð!

Já, það er afar erfitt að kljást við barn sem ekki vill brjóstið. Mér sýnist á því sem þú skrifar að þú sért með mörg góð ráð í takinu og þú skalt endilega reyna að nota þau áfram. Reyndu líka önnur ráð sem þér finnst líklegt að geti hjálpað þínu barni(maður þekkir alltaf best sitt barn). Það getur líka hjálpað að reyna að forðast rask eða breytingar í umhverfi. Sum börn þola slíkt illa fyrstu mánuðina. Það myndi sérstaklega hjálpa til við að koma í veg fyrir verkföll. En auðvitað er ekki hægt að koma í veg fyrir öll verkföll eins og t.d.vegna tanntöku eða líkamlegrar vanlíðunar. Þannig að þá þarf að bíta á jaxlinn og hjálpa barninu eins og maður getur best. Bjóddu brjóstið eins oft og þú getur, þolinmæðin uppmáluð.

Með kærri kveðju.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. ágúst 2014.