Spurt og svarað

25. ágúst 2004

Brjóstaverkfall

Mig langaði að spyrja hvað geti valdið því að barnið hætti að vilja brjóst. Litli snáðinn minn hefur alltaf verið mikill brjóstakall, hefur helst viljað vera þar nánast allan sólarhringinn. Núna er hann orðinn 4 mánaða og sýnir mikinn mótþróa þegar ég legg hann á brjóstið, spennist allur upp og grætur. Getur þetta tengst því að hann er að fá tennur? Hvað get ég gert til að gera þetta að ánægjustund aftur, þar sem mig langar ekki til að hætta með hann á brjósti.

Með fyrirfram þökk.

Sæl og blessuð.

Ef barn hættir skyndilega að vilja brjóst á fyrsta árinu er það yfirleitt kallað brjóstaverkfall. Á fyrstu 8 mánuðunum er það lang oftast tímabundið í 1-4 daga. Það breytir því þó ekki að barnið þarf hjálp við það, það líður ekki hjá af sjálfu sér. Það er mikilvægt að móðir líti ekki á verkfallið sem höfnun barnsins eða að því mislíki eitthvað í fari móður sinnar og sé með mótþróa. Viðbrögð barnsins eru einlæg og það er eitthvað sem hefur sett það úr jafnvægi, aðalatriðið er að finna ástæðuna. Stundum liggur hún í augum uppi en oftar þarf að grafa hana upp. Algengustu ástæður eru:

 • Stórar breytingar í umhverfi (flutningar, ferðalög o.s.frv.)
 • Streita móður (fjölskyldu)
 • Nýtt krem á líkama móður
 • Svitalyktareyðir
 • Sápa
 • Þvottaefni
 • Ilmvatn
 • Byrjun tíða hjá móður
 • Miklar fæðubreytingar hjá móður
 • Kvef eða önnur veikindi barns (eyrnaverkur eða nefstífla)
 • Tanntaka 

Það eru til fleiri óljósari ástæður en sennilega ástæðulaust að halda áfram. Þegar ástæðan er fundin er komið að því að laga ástandið. Það krefst vinnu og að vissu leyti þarf að endurnýja samband sem brestir eru komnir í. Það er því mikilvægt að leggja sig fram um að gera umgjörð brjóstagjafarinnar sem notalegasta. Velja góðan stað, útiloka truflanir, nota slökun, róandi tónlist, rökkur o.s.frv. Bjóða barninu brjóstið þegar það er mjög syfjað eða jafnvel hálfsofandi. Uppáhaldstillaga mín er að gefa brjóst í notalegu baði og það virkar oft mjög vel. Utan brjóstagjafa er faðmlögum, strokum og gælum við barnið fjölgað og því haldið mikið upp við líkama móður sinnar þessa daga. Aldrei láta gjafir þróast út í slagsmál. Um leið og barn byrjar að spenna sig upp er aðgerð hætt og reynt einhver önnur aðferð. Ekki hætta samt alveg aðgerðum fyrr en barnið er komið á brjóst þótt það kosti mikla vinnu. Um leið og ísinn er brotinn er eftirleikurinn auðveldari. Þegar rétta aðferðin er fundinn er barnið yfirleitt mjög fljótt að jafna sig. Oft bara örfáar gjafir. Ef þú er viss um að ástæðan sé tanntaka í þínu tilfelli gæti hjálpað að kaupa deyfandi efni á tanngómana til að barninu líði betur í brjóstagjöfinni. Það er ekkert sem þarf að nota til frambúðar. Oft duga nokkur skipti.

Með von um að einhver þessara ráða hjálpi.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.