Spurt og svarað

28. maí 2008

Brjóstavesen

Ég er með eina 5 vikna sem ég er í vandræðum með. Ég er búin að fara til brjóstaráðgjafa og sagði hún að það væri of mikið flæði í brjóstunum á mér og væri hún að fá allt of mikla mjólk í einu og væri því með mjög mikið loft í maganum og taldi það vera ástæðuna fyrir miklum pirring sem hún er með. Hún sagði mér að ég ætti að klípa brjóstið saman í hverri gjöf og taka hana af brjóstinu eftir 1½ mín. til þess að láta hana ropa og setja hana aftur á brjóstið og klípa það aftur saman og vera svoleiðis í ca. 3 mín. og sleppa takinu eftir það. Leyfa henni síðan að hætta sjálfri á brjóstinu þegar hún vill. Hún vigtaði hana eftir gjöfina og sagði að hún væri að fá meira en nóg þó svo að hún er svona stuttan tíma á brjóstinu og væri hún því orðin södd eftir þessar 5 mín. Hún þyngist mjög vel og er orðin 4.350 gr. Brjóstaráðgjafinn sagði að ég ætti ekki að gefa henni nema á 2-3 tíma fresti því hún er að þyngjast svo vel og yrði bara verri ef ég færi að gefa henni örar.Ég er búin að reyna þetta en mér finnst þetta ví miður ekkert ganga Hún grætur mikið eftir þessa gjöf og vill fara aftur á brjóst og ég byrjaði á því í 2 daga að setja hana ekki aftur á brjóstið því brjóstaráðgjafinn sagði að hún væri að fá meira en nóg eftir þessar 5 mín. En það fór þannig að hún grét í einhverja 3-5 tíma í einu og sofnaði síðan en vaknaði upp aftur eftir 20 mín. og þá var það sama sagan.  Að lokum gafst ég upp og setti hana aftur á sama brjóstið og drakk hún þá í einhverjar 5-7 mín. og steinsofnaði eftir það. Þetta gekk svona vel til að byrja með en núna er hún farin að láta illa á brjóstinu, spennist öll upp og missir vörtuna og vill ólm fá hana aftur en spýtir henni fljótt út úr sér aftur. Ég er held ég ekki að setja hana vitlaust á brjóstið því brjóstaráðgjafinn fylgdist með mér setja hana á brjóst og sagði að ég væri alveg að gera rétt.

Ég er alveg að gefast upp á þessu og er verulega farin að íhuga ábót. Hún hefur aldrei fengið ábót, ekki drukkið úr pela og tekur ekki snuð svo það er ekki að trufla. Langar samt svo til þess að hafa hana eingöngu á brjósti áfram ef það er mögulegt.

Kveðja, Ein alveg ráðalaus.


Sæl og blessuð„Ein alveg ráðalaus“.

Það er sjálfsagt ýmislegt sem þú getur gert til að laga ástandið. Þú þarft alls ekkert að örvænta. Þegar næg mjólkurframleiðsla er til staðar þá er þetta oftast bara spurning um rétta formið á að koma henni í barnið. Brjóstagjafaráðgjafar tala yfirleitt ekki um „of mikið flæði í brjóstum“ heldur „hratt flæði“. Því er barnið að fá mjólkina sína í hröðu flæði sem sum börn eiga erfitt með að ráða við. Það kemur mjólkurframleiðslunni ekkert við þannig séð því hún er yfirleitt hæfileg fyrir barnið. Stundum fara börn í mikinn gleypugang í hröðu flæði og gleypa þá meira loft en almennt gerist. Þá getur hjálpað að láta þau ropa snemma í gjöfinni ásamt því að láta þau ropa eftir gjöf og kannski í miðri gjöf líka. Klemmuaðferðin virkar svo yfirleitt mjög vel til að hægja á flæðinu og þá lengist gjöfin um leið. Það þarf reyndar oft dáldið góða æfingu í klemmuaðferðinni þannig að gefðu þér lengri tíma með það. Það er hins vegar aldrei reynt að takmarka gjafalengd við börn þannig að þú gætir hafa mistúlkað eitthvað þar. Gjafafjöldi er heldur ekki takmarkaður ef börn vilja margar gjafir. Börn sem ná góðum gjöfum sem gefa þeim vel þurfa hins vegar oft ekki margar gjafir.
Þannig að kannski myndi hjálpa þér að einbeita þér að klemmuaðferðinni, passa stellingu barnsins. Leyfa barninu að drekka eins oft og það vill og eins lengi og það vill. Og ég veit ekki hvort þú heldur í alvöru að ábót myndi leysa einhvern vanda en ef þú heldur það þá er það misskilningur. Meltingarvegur barns sem á fullt í fangi með brjóstamjólk gæti átt ennþá erfiðara með að ráða við kúamjólk.

Vona að svörin hjálpi.             

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.