Spurt og svarað

16. júlí 2008

Brjóstgjöf og andleg heilsa móður

Sælar og bestu þakkir fyrir frábæran vef, mjög gott að geta leitað hingað.

Ég á við vanda að stríða og veit ekki hvernig það er best að byrja. Ég er greind ofvirk með athyglisbrest og hvatvísi og á sögu um fæðingarþunglyndi. Ég hef lært huglæga atferlismeðferð sem hefur gagnast mér hingað til á meðgöngunni og eftir fæðinguna og mér tókst að standast þunglyndisprófið þegar barnið mitt var 9 vikna en þá leið mér líka svo vel. Ég fór í brjóstaminnkun fyrir tæpum þrem árum síðan og hefur brjóstagjöfin ekki gengið eins og með fyrra barnið mitt. Það er búið að vera mjög erfitt að rembast við brjóstagjöfina og höfum við alltaf þurft að gefa barninu ábót, fyrst úr staupi en þegar það var 3ja vikna fékk það fyrst einn pela og var komið í 3x150 ml pela 9 vikna og þá loksins orðið „hamingjusamt“. Núna er barnið 12 vikna og ég er farin að finna fyrir þunglyndis- og streitueinkennum, líður eiginlega óskaplega illa, er uppstökk og farin að einangra mig eins og ég gerði áður. Sama hvað ég reyni að berjast við þetta virkar ekkert. Ég veit ekki hvað ég á að gera, á ég að hætta með barnið á brjósti svo ég geti tekið lyfin mín aftur (ritalin UNO) eða halda áfram að reyna við brjóstagjöfina með pelunum. Ég veit að brjóstagjöf er best fyrir barnið en mér finnst hún taka svo mikinn toll af heilsu minni eftir allt þetta basl með hana. Vonandi getið þið svarað mér, ég fæ ekki tíma strax hjá lækninum mínum og á ekki að mæta í ungbarnaverndina fyrr enn eftir 2 vikur með barnið.

Bestu kveðjur, Pínu vonlaus móðir.


Sælar!

Það er alltaf erfitt að meta svona líðan án þess að þekkja móður eða hitta hana. Ég ætla að ráðleggja þér að hringja í þín heilsugæslu og fá viðtal/símtal við þinn hjúkrunarfræðing eða ljósmóður í ungbarnaverndinni. Hún getur leiðbeint þér áfram eða fá viðtal við annan lækni á þinni heilsugæslustöð. Svona mál verður að ræða og skoða frá öllum hliðum og vera svo sátt við þá niðurstöðu sem fæst. Þú átt alls ekki að vera ein um að taka þessa ákvörðun - heilbrigðisstarfsfólk er til þess að hjálpa þegar líðanin er svona - svo ég ráðlegg þér endilega að hafa samband sem allra fyrst og fá viðtal.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
jósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
16. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.