Spurt og svarað

19. október 2007

Brjósthaldarar á meðgöngu og eftir fæðingu

Góðan daginn!

Getur notkun brjósthaldara með spöngum á meðgöngu orsakað vandræði t.d. stíflur og stálma þegar brjóstagjöf hefst að lokinni fæðingu? Enn fremur er óskynsamlegt að nota slíka brjósthaldara á meðan maður er með barn á brjósti?  Ég geri mér grein fyrir því að gjafahaldarar eru langtum skynsamlegri eftir að barnið er fætt, en var að velta fyrir mér hvort óhætt væri að nota slíka haldara endrum og eins.

Bestu þakkir.


Sæl og blessuð.

Það er allt í lagi að nota brjóstahaldara með spöngum á meðgöngunni. Það hefur ekki seinni áhrif á brjóstagjöfina. Það á hins vegar ekki að nota slíka haldara í brjóstagjöf því þeir geta heft flæði til brjóstanna og það er þekkt að þeir geta valdið brjóstastíflum og öðrum óþægindum í brjóstum. Brjóstagjafahaldarar eru aldrei með spöngum ef að þeir eru frá alvöru fyrirtækjum en á þessum síðustu og verstu tímum flæðir yfir okkur fatnaður frá óvönduðum fyrirtækjum og þar á meðal „gjafahaldarar“ með spöngum sem eiga fyrst og fremst að vera flottir en hagnýti skiptir ekki máli. Auðvitað á maður ekki að kaupa frá slíkum fyrirtækjum en ég hef hins vegar alltaf dáðst að íslenskum konum sem hafa sýnt hugvit sitt með því að kaupa „flotta“ haldara (þær sem það vilja) klippa á þá gat og kippa spöngunum úr.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.