Brjóstin fyrstu dagana eftir síðustu gjöf

22.07.2007

Sæl.

Er með 11 og hálfs mánaða dúllu sem ég er að venja af síðustu gjöfinni, hef trappað brjóstagjöfina hægt niður. Þetta gengur bara ágætlega nema að mér er farið að líða frekar illa í brjóstunum. Þau eru aum og hörð eins og þau séu stút full af mjólk. Fór í heita sturtu í kvöld og reyndi að nudda létt en það kom engin mjólk. Ég er mjög aum. Getur þetta verið eðlilegt ferli þegar mjólkin hættir? Ég finn hvergi upplýsingar um hvernig mjólkurbúið starfar eftir að maður hættir alveg gjöfum. Þetta er þriðji dagurinn sem hún ekkert fær að drekka en ég er ekki með hita eða sýkingareinkenni.

N.B. þegar ég hætti með son minn á brjósti á svipaðan hátt fann ég aldrei neitt fyrir þessu.

Með bestu kveðju og von um skjótt svar.

Kveðja, Anna.


Sælar!

Þetta gerist stundum að brjóstin verða þrútin þegar brjóstagjöf er hætt. Hægt er að leggja bakstra á brjóstin kalda eða heita - þá minnkar þrotinn oft. Einnig er hægt að reyna að mjólka aðeins úr brjóstunum - ef það gengur þá mýkjast þau aðeins. Oftast þá minnkar þrotinn smá saman. Ef þér líður illa þá getur þú líka leitað til ljósmæðra og/eða brjóstagjafaráðgjafa í skoðun.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júlí 2007.