Brúnkukrem og brjóstagjöf

27.11.2004

Hæ, hæ og takk fyrir frábæra síðu.

Er óhætt að nota brúnkuklúta (self tanning) eða fara í brúnkumeðferð fyrir allan líkamann þegar maður er með barn á brjósti? Hef lesið mér til um þetta efni „DHA“ (er í sumum brúnkukremum) og að ekki sé talið æskilegt að það fari í miklum mæli í líkamann og ófrískar konur ætti því að sneiða hjá því. Hvað með konur með barn á brjósti?

Með þökk og kveðju,
Eyja
.

............................................................................

Sæl og blessuð Eyja.

Já þér er alveg óhætt að nota brúnkuklúta þegar þú ert með barn á brjósti. Það er auðvelt að sleppa því að bera á svæðið sem fer upp í barnið. Brúnkumeðferð á allan líkamann er líka í lagi. Það má setja bómullarplötur yfir vörturnar á meðan. Það er ekki það að það sé svo voðalega hættulegt efni sem um er að ræða en það er óþarfi að mata barnið á brúnkukremi. Það á jú við um öll krem. Flestar konur eru ekki að sækjast í að verða brúnar á geirvörtum eða vörtubaugum þannig að það er svæði sem má gjarnan sleppa í meðferðinni.

Með gullinbrúnum kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. nóvember 2004.