Spurt og svarað

09. desember 2005

Byrjaður að borða, er á brjósti

Sælar verið þið og takk fyrir frábæran vef

Ég hef verið að velta aðeins fyrir mér varðandi brjóstagjöf eftir að barn er byrjað að borða. Ég er með lítinn dreng sem er tæplega sjö mánaða sem hefur verið á brjósti fram að sex mánaða aldri. Nú er hann farinn að borða þrisvar á dag og gengur það bara vel. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvernig maður á að haga brjóstagjöfinni núna svo einhver rútína skapist yfir daginn. Áður en hann byrjaði að borða þurfti ég að gefa honum mjög oft yfir daginn og líka oft á næturna og virtist ég þurfa að hafa mikið fyrir því að eiga nóg fyrir hann en það gekk nú samt. Nú veit ég eiginlega ekki hversu oft ég á að gefa honum. Er svolítið óvön því að þurfa ekki stöðugt að vera að gefa honum brjóstið. Núna hef ég vanið mig á að gefa honum áður en hann fær að borða því annars vill hann ekki drekka eins vel hjá mér. Samt sem áður finnst mér hann vera að drekka svo stutt í einu og eins og hann klári ekki alveg úr brjóstinu því eftir að ég byrjaði að gefa honum að borða hef ég fengið hnúta í brjóstin og þá vill hann náttúrulega alls ekki drekka úr því brjósti þar sem rennslið er örugglega eitthvað hægara en vanalega. Einnig hefur hann fengið eyrnabólgu á þessu tímabili sem gerði það að verkum að hann átti erfiðara með að drekka öðru megin. Annars hefur hann fengið að drekka hjá mér á kvöldin og á næturna eins og hann vill og í raun yfir daginn líka ef mér finnst hann leita eftir því. En er að spá í hvort ég sé að gera eitthvað vitlaust sem geri það að verkum að ég fái þessa hnúta. Með von um svör en fullan skilning á því að þið hljótið að fá ógrynni af fyrirspurnum og getið ef til vill ekki svarað!

Með aðventukveðju, Margrét.

.....................................................................................

Sæl og blessuð Margrét.

Það gæti verið að þú hafir farið heldur skart af stað með matinn. En það er allt í lagi. Passaðu þig bara á að bæta ekki við hann næstu vikurnar. Hvorki máltíðum eða magni. Brjóstin þurfa að aðlagast ástandinu. Eins og ég hef komið að hérna áður eru 2 aðferðir við að byrja fast fæði. Annaðhvort að byrja máltíðir og hafa brjóstið með þannig að gjafirnar séu jafnmargar og áður. Þá dregur samt úr mjólkurframleiðslu því barnið sýgur minna. Eða að byrja máltíðir og jafnframt fækka brjóstagjöfum um leið. Þá minnkar mjólkurframleiðslan jafnvel meira en brjóstin eru tiltölulega fljótari að aðlagast. Þá er tekin út ein ákveðin gjöf kl.eitthvað og sú gjöf er þá farin út af sólarhringnum og það kemur engin inn í staðin  en máltíð í staðin á þessum ákveðna tíma. Þú hefur valið fyrri aðferðina og þá eru brjóstin stundum svolítið lengur að jafna sig en það kemur. Þegar hnútar koma í brjóstin merkir það að þau eru ekki eins vel sogin og venjulega. Það veldur ekki hægara flæði og ef drengurinn er þá tregur að taka brjóstið hefur það aðrar orsakir. Þá er einmitt mikilvægt að þú reynir að fá hann til að sjúga vel.

Með von um að málin hafi eitthvað skýrst,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.