Concerta og brjóstagjöf

21.08.2007

Ég er með rúmlega 9 mánaða strák á brjósti sem fær brjóst aðeins snemma á morgnana, áður en við förum á fætur og á kvöldin, áður en hann sofnar, eða um 21. Nú langar mig að fara að byrja aftur á Concerta til að vera sem virkust í próflestri og í skólanum í haust. Þetta eru 54 mg töflur sem eiga að virka í ca. 8 tíma og ekki meir. Er þá í lagi fyrir mig að taka töflu á morgnana þegar strákurinn minn er búinn að drekka? Er einhver séns á að einhver efni séu í brjóstamjólkinni 12 tímum eða meira eftir að ég tek töfluna? Gæti ég mögulega skemmt eitthvað í miðtaugakerfinu hans?

Með von um skjót svör:)


Sæl og blessuð!

Eins og ég hef svarað áður er þetta lyf nýlegt og það vantar um það langtímaupplýsingar. Þetta eru forðatöflur sem þýðir að verkun er löng eða a.m.k. 12 klst. sem er ansi langt fyrir mjólkandi konu. Það er þó ekkert útilokað að það sé allt í lagi að taka það. Ég ráðlegg þér að ráðfæra þig við lyfjafræðing eða lækni. Það er mjög líklegt að til sé sambærilegt lyf með styttri verkun.  

Vona að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. ágúst 2007.