Danski kúrinn og brjóstagjöf

10.02.2006

Hæ og takk fyrir frábæran vef.

Ég er með 4 mánaða barn á brjósti og langar að ná af mér meðgöngukílóunum(sem voru þó nokkur). Var að skoða danska kúrinn og líst mér vel á hann, mikið grænmeti, prótein og enginn sykur en þó má drekka og borða sykurlausar matvörur. Hefur gervisykur(aspartam ofl.) einhver áhrif á brjóstamjólkina eða barnið?

Með fyrirfram þökk, kveðja fröken danska.

...............................................

 

Sæl fröken danska!

 

Margar mömmur sitja uppi með „örfᓠaukakíló frá meðgöngunni, stundum renna þau hratt af en furðu oft sitja þau sem fastast. Þegar barn er á brjósti, flýtir það oft fyrir þyngdartapi ef maður borðar vel samansettan mat samkvæmt ráðlagðri næringarþörf. Það er almennt ekki ráðlagt að fara í stranga megrun með barn á brjósti en danski kúrinn sem þú vitnar í, er mjög skynsamlega samansettur að því leyti að fólk er að fá öll nauðsynleg næringarefni og það er borðað reglulega en af skynsemi og sneitt hjá sykri og óhóflegri fitu og minnkuð inntaka af kolvetnum.

 

Hvað varðar fyrirspurnina um gervisætuefnin þá er almennt séð ekki talið heppilegt að neyta mikils magns af sykurlausum drykkjum, betra er að drekka bara vatn, hvort sem er kolsýrt eða venjulegt. Fínt að hafa könnu af köldu vatni í ísskápnum með sítrónu eða ávaxtabitum út í. Sætuefnin sem notuð eru í stað sykurs í þessum kúr eða almennt í aðhaldi eru í svo litlu magni að það gerir engum mein hvort sem barn er á brjósti eða ekki.

Svo er hreyfingin alltaf mikilvæg, því hún eykur brennsluna. Um að gera að byrja rólega, mátulegt að byrja á að fara í kraft-göngutúra með barnavagninn!

 

Gangi þér vel!

 

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi.
10.02.2006.