Spurt og svarað

22. mars 2015

Dregið úr brjóstagjöf

Góðan dag og þakkir fyrir góðan og gagnlegan vef!

Mig langar aðeins að fá aðstoð með brjóstagjöfina. Þetta er mín þriðja brjóstagjöf en rúm 7 ár síðan síðast. Ég er ein af þeim konum sem þykir brjóstagjöfin stórt verkefni og ekki eitthvað sem bara „er“. Ég er með 7 ½ mánaða dreng sem var eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs. Þá fór ég að kynna fyrir honum fasta fæðu. Enn er brjóstamjólkin hans meginfæða. Mér finnst heldur tengjast aldrinum en að smakka mat að hann er farinn að vilja lengja tímann á milli gjafa. Hann oft svona bara rétt grípur í brjóstið en vill ekki drekka mikið. Hann drekkur um 7-8 gjafir á sólahring, 3 á daginn, svo áður en hann fer að sofa og svo milli 22-23 (fær þá yfirleitt bæði brjóstin), svo um 2 og aftur milli 6-7 um morguninn, dormar svo til c.a. 9. Þá vill hann alls ekki drekka lengur og ég er með annað brjóstið alveg grjóthart (það sem var drukkið síðast kl. 2). Vandinn er kannski sá að ég hef boðið það þegar hann vaknar. Á ég ekki bara að taka út þessa gjöf alveg? Ég hef ekki verið að gefa graut eða annað þegar hann er kominn á ról því ég vil heldur að hann biðji um brjóstið og losi um. Eru þetta bara einhverjir dagar að þrauka? Mér hefur fundist í þessari brjóstagjöf eins og brjóstin séu lengi að átta sig á breytingum. Annars hef ég nú viljað gera þetta í rólegheitum. Nú svo er náttúrlega alveg óþolandi að enn sé fólk að hamra á hvort hann sé ekki farinn að borða og keppast við að segja mjólkandi mæðrum að nú sé mælt með því að „börn fari bara að borða allt snemma“...en gleymir því að í þessum rannsóknum var einmitt mælt með að allt væri þetta gert helst samhliða brjóstagjöf. Mér þætti vænt um að fá einhver ráð því ég hugsa stundum hvort að mér sé að ganga eitthvað óvenjuilla að trappa niður brjóstagjöfina.

Kær kveðja. Þriggja barna mamma.
Sæl og blessuð þriggja barna mamma!

Til hamingju með góða brjóstagjöf. Þetta hljómar eins og það gangi ósköp eðlilega fyrir sig. Þú ert greinilega fullfær um að skipuleggja áframhald brjóstagjafarinnar. En fyrst þú spyrð. Þetta að þér finnist barnið bara rétt grípa í brjóstið skaltu ekki láta blekkja þig. Það hefur nefnilega sýnt sig að á þessum aldri geta börn verið örfljót að ná því sem þau þurfa. Það gæti hjálpað þér að gefa ekki bæði brjóst í einni gjöf. Og þér er óhætt að taka út þær gjafir sem þér hentar. Hvort brjóstin eru lengur núna að aðlagast breytingum en áður er vafasamt en engar tvær brjóstagjafir eru jú eins.

Ég er alveg sammála þessu sem þú segir um afskiptasamt fólk. Það mætti kannski benda því á að það geti stjórnað brjóstagjöf eigin barna eins og það vill en láta annarra manna börn stjórnast af sinni eigin fjölskyldu.

Gangi þér áfram jafn vel og áður.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. mars 2015.

 

 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.