Spurt og svarað

10. mars 2005

Drekkur alla nóttina

Sælar kæru ljósmæður, mig langar svo að leita ráða hjá ykkur.

Sonur minn er nú 7 mánaða, hann hefur verið hraustur, vær og góður frá fæðingu. Hann var eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs og fór svo að fá graut og grænmeti eins og vera ber. Fram að þeim tíma svaf hann flestar nætur, sofnaði um átta leytið, ég tók hann upp og gaf honum þegar ég fór að sofa og svo svaf hann til svona 5-6 og fékk sér að drekka. En nú vill hann liggja á brjósti allar nætur, vill ekki sofna sjálfur. Ég get „platað“ hann með snuddunni en þá vill hann liggja alveg upp við mig eins og til að fá þessa „brjóstatilfinningu“.

Ég er hálf ráðalaus, ég hef svo sem ekkert á móti næturgjöfum, finnst notalegt að hafa hann upp í en þetta gengur ekki að hafa hann á brjósti í 12 tíma. Við erum búin að reyna að fara eftir ráðleggingum ykkar með svefnvenjur en hann lætur sig ekki. Hann grætur sig í svefn á hverju kvöldi í allt að 30 mínútur áður en hann sofnar og það er hræðilegt að hlusta á hann gráta á hverju kvöldi. Getur verið að hann vanti knús þegar brjóstagjöfunum fækkar yfir daginn í kjölfar þess að hann er farinn að fá mat eða er þetta einhver valdabarátta? Hann er svo glaður á daginn, unir sér vel á teppinu sínu á gólfinu og grætur aldrei nema þegar hann á að fara að sofa á kvöldin. Ég vona að þið getið gefið mér einhverjar ráðleggingar.

Með fyrirfram þökk, mamma.

......................................................................

Sæl og blessuð.

Það er mikilvægt finnst mér að mæður með börn á brjósti skilji það að þegar börn byrja að borða fasta fæðu þá eru þau að fara yfir á mun lélegra fæði en þau voru. Brjóstamjólkin inniheldur öll efnin sem barnið þarf í einum pakka. Grautar, mauk, ávextir eða grænmeti sem útbúið er fyrir börn innihalda aldrei nema brot af þeim næringarefnum sem þau þurfa á að halda í einu. Það er jú reynt að hafa það fjölbreytt og gefa brjóstamjólk á milli en mörg börn fá vöntunartilfinningu einmitt á þeim tíma sem verið er að koma þeim smám saman yfir á annað fæði.

Athugaðu hvort þú hefur farið of hratt í að venja af brjósti. Athugaðu hvort þú hefur kippt út einhverri mikilvægri brjóstagjöf að kvöldinu. Það er líka alltaf talið mjög mikilvægt að þegar brjóstagjöf er tekin út þá fái barnið eitthvað annað í staðinn. Auka knús, sérstaka athygli eða eitthvað sem þeim þykir sérstaklega varið í (fer eftir aldri). Það er jú verið að svipta þau hlut sem þau eru ekki sjálf tilbúin að sleppa og sakna þegar hann er horfinn. Ég þekki ekki margar mæður sem geta hlustað á barnið sitt gráta í 30 mínútur á hverju kvöldi og ég vona að þú gerir það ekki lengi. Þér er alveg óhætt að trúa því að þetta er ekki valdabarátta. Barnið hugsar eingöngu út frá þörfum sínum og að fá þær uppfylltar. Þær eru ekki flóknar á fyrstu mánuðunum og völd eru örugglega ekki þar á meðal.

Með von um að þið sofið sætt saman örlítið lengur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.