Spurt og svarað

11. október 2009

Drekkur illa

Þegar ég varð ófrísk hlakkaði mig rosalega til að gefa brjóst. Fannst það (og finnst) mjög falleg og innileg athöfn. En eftir að barnið fæddist hefur þetta verið svoldið bras. Hann tók brjóstið strax en ég fékk stálma sem var lengi að fara, var svo bólgin að hann náði ekki taki og maðurinn minn varð að gefa mér hjálparhönd. Strákurinn var óþolinmóður og ég gat ekki bæði gert C takið, haldið honum og stungið því upp í hann. Svo tók hann illa vinstra brjóstið. Ég lá yfir bæklingum og fékk ljósuna til mín og tókst á endanum. Svo voru það sár og eymsli. Svo kom gott tímabil. Hann var reyndar lengi að drekka og drakk ört en það var tímans virði. Svo byrjaði hann að láta asnalega þegar hann drakk. Tók brjóstið og saug smá, fór af, á aftur, kvartaði, hnipraði sig saman, snéri höfðinu til og frá,upp og niður, út um allt með geirvörtuna upp í sér sem var ekki þægilegt. Svo fékk ég blöðru öðru megin. Svo fór hann að drekka hálf illa, lagaðist svoldið en nú kemur þetta fyrir næstum á hverjum degi að einhver gjöfin er vesen. Það er kannski ein góð utan næturgjafirnar. Ég hef prufað bæði brjóstin, að reyna aftur eftir 10 mín. eftir 15 mín. og að leggjast. Svo var þetta orðið þannig að ef ég lét hann í stellingarnar til að drekka byrjaði hann að orga. T.d í dag hefur hann drukkið vel 1x á 8 tímum, smá tutl inn á milli annars ekkert. Ég hef athugað þegar hann lætur svona hvort það komi ekkert og handmjólka mig. Það sprautast yfirleitt strax við fyrstu tilraun. Ég er farin að hugsa um hvenær ég geti með góðu móti hætt með hann á brjósti en mig langar ekki að gefa honum þurrmjólk og það koma oft nokkrir æðislegir dagar. Hef nokkrum sinnum rétt karlinum barnið og bara grenjað og fundist ég svo ömurlega léleg mamma að geta ekki almennilega gefið eða kunni ekki á barnið. Hann er 12 vikna og hefur mér verið sagt að þetta geti verið vaxtakippur en ég hélt að þá drykkju þau örar en væru ekki lystarlaus. Þetta er búið að vera svona í 10 daga.

Kveðja. Ein þreytt og ráðalaus í von um góð svör. Jónína.

 


Sæl og blessuð Jónína!

Þetta er greinilega búið að reyna á þolrifin hjá þér. Það er nokkuð ljóst miðað við lýsinguna á byrjuninni að hún hefur ekki farið rétt af stað. Barnið hefur tekið vörtuna vitlaust og í framhaldinu koma oft hin ýmsu vandamál. En það þýðir ekki að velta sér upp úr því núna heldur reyna að einbeita sér að því sem hægt er að laga. Þú getur reynt að fá aðstoð við að fá betra sog hjá barninu. Stundum tekst það hjá svo gömlum börnum en stundum ekki. Aðferðin felst aðallega í að sogþjálfa barnið og að nota betri gjafastellingar. Svo getur verið að þú þurfir að stjórna mjólkurflæðinu betur í gjöfinni. Það er líka svo merkilegt með börn á þessum aldri að þau þurfa oft svo ótrúlega stuttan tíma til að drekka sig södd. Ef flæðið er gott og gjafirnar eru þeim eitthvað óþægilegar þá reyna þau að afgreiða þetta á örfáum mínútum. Þannig að það borgar sig ekki að reyna lengi ef mótstaðan gerir vart við sig. Og það er rétt hjá þér með vaxtarkippina. Þá vilja þau drekka mjög ört og sækja fast í brjóstið.

Vona að þetta verði einhver hjálp.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.