Drekkur með lítið opinn munn - o.fl.

14.07.2007

Hæ og takk fyrir skemmtilegan vef ;)

Mig vantar smá svör og ákvað að leita hingað fyrst. Málið er að ég á mánaðar gamlan son sem er bara á brjósti. Hann er að þyngjast mjög vel en ég er að spá varðandi sogið hans. Hann er ekki með munninn svona galopinn þegar hann er að drekka heldur frekar lokaðan. Ég er samt ekki með sár og það er ekki vont þegar hann drekkur. Ætti ég að reyna að laga þetta eða skiptir þetta ekki máli? Alveg síðan hann fæddist þá hefur hann opnað munninn frekar lítið. Mun þetta hafa áhrif þegar hann fer að fá tennur?

Annað, ég fer í skóla núna í ágúst og ætla að mjólka mig til að hann fái brjóstamjólk meðan ég er í burtu. Las að það megi safna mjólk í frystinn en það sem ég vildi vita er hvort það sé svo sniðugt. Hef alltaf lesið að mjólkin breytist eftir aldri barnsins. Ef ég mjólka mig í dag og gef honum eftir 1,5 mánuð er þá ekki samsetning mjólkurinnar öðruvísi en hann þarf þá? Er svo ekki sniðugra að fá sér rafmagnspumpu til að ná sem mestu? Er betra að mjólka sig kannski bara alltaf daginn ur fyrir næsta dag. Þetta verður ca 1 gjöf á dag 4 daga vikunnar. Vona að þú skiljir hvað ég er að tala um og takk fyrirfram fyrir svarið.

Kveðja, ungamamman.


Sælar!

Varðandi drenginn - með munninn þegar hann er að drekka - þá er aðalatriðið að hann opni vel muninn þegar hann er að taka geirvörtuna upp í sig, síðan lokar hann/þéttir hann munninum um geirvörtuna - svo ef þú finnur ekkert til þegar hann er að sjúga - þá reikna ég með því að hann sé að taka geirvörtuna rétt. Ég held að þetta hafi ekki áhrif þegar hann tekur tennur.

Jú það er sniðugra að hafa rafmagnspumpu ef mjólka þarf reglulega úr brjóstunum - ég held að það verði nóg að mjólka úr brjóstunum stuttu áður en þú ferð í skólann - ef það er bara ein gjöf á dag sem hann þarf.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. júlí 2007.