Spurt og svarað

29. ágúst 2010

Drekkur sig í gegnum magaverki

Hæ hæ og takk fyrir ómetanlegan vef!

Ég er með smá vandamál sem ég veit ekki alveg hvort er í raun vandamál. Sonur minn, rúmlega fjögurra vikna, þrífst og dafnar vel en er stundum með töluverða vindverki og rembist þá og grætur. Þetta getur verið mjög átakanlegt. Það sem ég var að spá í er að hann vill alltaf drekka sig í gegnum óþægindin. Hann fer að leita að brjóstinu þegar herpingurinn byrjar og þegar ég legg hann á brjóst sýgur hann af miklum krafti og virðist róast þótt hann gráti oft áfram á milli soga. Oft nær hann að sofna. Við höfum auðvitað reynt að róa hann með öðrum hætti en yfirleitt virkar ekkert. Nú veit ég ekki hvort hann er svangur eða hvort hann sé bara að leita huggunar með því að sjúga (hann vill alls ekki liggja við brjóstið með snuð). En spurning mín er sú hvort  sé allt í lagi að hugga hann með brjóstinu? Stundum finnst mér hann vera að borða yfir sig. Annars er hann almennt oft svangur og drekkur um 12 sinnum á dag  í um 20 mín. og allt upp í 45 mínútur. Hann sefur mjög lítið á daginn en hann sefur vel á nóttunni og vaknar þá lítið til að drekka. Hann hefur þyngst mjög vel um 1200g frá fæðingu.

 


Sæl og blessuð!

Já, það er í mjög góðu lagi að róa barnið við brjóstið. Þess vegna er oft talað um að brjóstið sé svo miklu meira en næring. Vonandi er svo um tímabundin óþægindi hjá honum að ræða þannig að þessi aukatími á brjóstinu styttist. Það kemur reyndar ekki fram hvort þú gefur bæði brjóst í hverri gjöf en það held ég að þér væri ráðlegt. Gefa þá fyrra brjóstið í um 15 mín. skipta og leyfa honum að klára sig á hinu brjóstinu.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.