Bráðabirgðasvar úr fylgjusýnatöku

08.09.2011

Hæ, hæ!

Ég er ólétt, meðganga nr 5. Ég á 3 lifandi og heilbrigð börn en á sögu um eitt dulið fósturlát. Nú er ég sem sagt aftur komin af stað og er á 12. viku. Við skoðun sást aukin hnakkaþykkt (4,8 mm) og bjúgur yfir maga fóstursins. Ég fór í fylgjusýnatöku og var að fá bráðabirgðasvarið sem var ekkert athugavert við og leit vel út en þarf að bíða 2 vikur eftir lokaniðurstöðu og finnst það agalega langur tími. Hjartsláttur fóstursins var 150 slög og allt annað lítur vel út. Það sem ég vil endilega fá að vita hvaða erfðagallar eða sjúkdómar geta greinst úr lokaniðurstöðunum annað en þrístæðurnar 21, 18 og 13 sem kemur ekki fram í bráðabirgðasvörum.Sæl!

Bráðabrigðasvar sýnir hvort um eðlilegan fjölda litninga er að ræða, en frumurnar eru ræktaðar áfram í 10 daga er þá byggingargerð þeirra skoðuð. Mjög sjaldgæft að eitthvað óeðlilegt sé við það , þegar um aukna hnakkaþykkt er að ræða. Frumurnar vaxa mishratt og því ekkert hægt ráða við þennan tíma sem þetta ferli tekur. Venjulega er skoðað aftur við 16 vikur þegar hnakkaþykkt er aukin eins og hjá þér, hjartað skoðað eins vel og hægt er, ef hnakkaþykkt er ennþá aukin við 16 vikur er tekin blóðprufa til að athuga hvort um veirusýkingu geti verið að ræða. Því miður verður þú að hafa þolinmæði til bíða eftir þessum skoðunum, því tíminn vinnur með okkur.

Gangi þér vel,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningadeild LSH,
8. september 2011.