Spurt og svarað

26. október 2006

Dropar frá handakrikanum

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Þannig er mál með vexti að það er einhverskonar pínulítill hnúður eða þykkildi undir handakrikanum á mér og þegar að ég gef barninu mínu þá leka alltaf einhverjir dropar undir handakrikanum .einnig ef að ég kreisti þetta þá koma alltaf einhverjir dropar. Þetta er svolítið pínlegt því bolurinn blotnar að sjálfsögðu eilítið við þetta og og mér finnst það óþægilegt innan um annað fólk. Er þetta eðlilegt eða þarf að láta kíkja á þetta! Ég hef aldrei heyrt um neinn sem lekur mjólk undan handakrikanum og þetta er mitt 3. barn og ég hef ekki orðið vör við þetta áður.

Kveðja, Ein gölluð.


Sæl og blessuð „Ein gölluð“.

Ég  myndi nú ekki segja að þú værir neitt gölluð, frekar að þú værir enn fullkomnari en við hinar. Þú ert með það sem kallað er aukabrjóst. Þau eru sennilega algengust í handarkrikanum en geta líka verið á kviðnum. Þau geta í raun verið hvar sem er á mjólkurlínunni sem nær frá handarkrika að brjóstvörtu og beint niður alveg niður í nára beggja megin. Stundum eru líka geirvörtur. Stundum ófullkomnar sem líkjast oft fæðingarblett og konur halda oft að sé einn slíkur eða alveg fullkomnar geirvörtur. Það er misjafnt hvort útrás er frá þessum aukabrjóstum og í þínu tilfelli er það. Það sem lekur út er semsagt mjólk. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé ekki smart í fjölmenni en þetta er ekkert óeðlilegt. Þú getur reynt að losna við þessa útferð með því að hætta að kreista út úr þessu og stoppa lekann. Það getur líka hjálpað að setja kalda bakstra á þetta. Annars áttu að hreyfa sem minnst við þessu. Þessi brjóstvefur örvast til meiri framleiðslu við hreyfingu og losun eins og annar brjóstvefur og hættir framleiðslu ef hann er hunsaður. Tíminn vinnur því með þér og þetta á að hætta þegar frá líður. Eftir að brjóstagjöf lýkur geturðu látið fjarlægja þetta ef þú vilt. Það er smekksatriði. Sumum finnst bara flott að vera pínulítið öðruvísi en fjöldinn, sumum finnst ekki skipta máli þótt þetta sé þarna en aðrir vilja endilega losna við þetta.

Með bestu framtíðaróskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.