Spurt og svarað

13. ágúst 2006

Droparnir sem eftir eru

Ég var með börnin mín lengi á brjósti, það eldra hætti fyrir einu og hálfu ári, þá komið á fimmta ár, og það yngra nú í vor, rétt tæpra fjögurra ára. Afvenjunin var afskaplega róleg eins og títt er með svona gömul börn, og í raun ekki alveg á hreinu hvenær yngra barnið hætti nákvæmlega. Ég fann því ekki fyrir neinum óþægindum við að hætta, engri þenslu eða yfirfylli.
Það sem ég er að velta fyrir mér er það, að þeir dropar sem ég enn
framleiði (það er helst að einn eða tveir spretti fram þegar ég fer í
heitt bað) eru skærgulir, eiginlega svipaðir og broddurinn sem ég man
eftir frá fyrstu vikunni eða svo, jafnvel enn skærari og dekkri, og mjög
seigfljótandi -og brimsaltir á bragðið!
Ég hef svosem engar áhyggjur af því en finnst það samt frekar furðulegt, vitið þið hvernig á þessu stendur?

Með þökk fyrir áhugaverðan vef.
Sæl og blessuð.

Þetta er að vissu leyti umbreytt mjólk. Brjóstin halda oft áfram að framleiða í örmagni "safa" eða "seyti". Eins og öll önnur líffæri sem seyta þá hættir það aldrei fullkomlega. Það sem brjóstin framleiða er að vissu leyti "mjólk" því það er auðvitað hlutverk þeirra. Þetta er samt ekki alveg í venjulegum skilningi mjólk. Heldur breytist hún í langri meðhöndlun og verður oft svona eins og þú ert að lýsa henni. Þetta er heldur ekki eins og broddur því það er ekki til staðar hormónaframleiðsla til hvatningar á framleiðslu. Þetta er ekki neitt merkilegt (enda hefurðu engar áhyggjur)heldur bara merki um eðlilega líkamsstarfsemi. Þetta liggur ekki heldur þarna í göngunum neitt að eilífu, heldur tekur líkaminn þetta upp aftur og notar í öðrum tilgangi en áfram seytist í staðinn örmagn mjólkur og hringurinn byrjar upp á nýtt.
Vona að þetta skýri fyrirbærið.                 
Katrín Edda Magúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
13.08.2006.
 
 
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.