Spurt og svarað

11. desember 2007

Egglos, blæðingar eftir árs brjóstagjöf?

Þannig er mál með vexti að ég er enn með barnið mitt á brjósti sem er núna að verða eins árs. Núna langar okkur í annað barn enda ég orðin 35 ára gömul. Ég gef barninu um 5 sinnum á sólarhring og vil alls ekki hætta strax, það hefur alltaf gengið vel enda mikið brjóstabarn hér á ferð. Ég fór á litlar blæðingar í 2 daga fyrir stuttu (var að verða úrkula vonar um að byrja yfir höfuð) og byrjaði viku seinna að nota egglosunarpróf en ætlunin er að nota það þangað til jákvæð niðurstaða kemur. Hitt er annað mál að ég hef ekki verið á neinum vörnum allan tímann og er núna að spá í hvort að það sé algengt að það líði svona langur tími þar til blæðingar verða. Er ég kannski bara ekki að fá egglos yfirleitt? Hversu mikil áhrif hefur brjóstagjöf á egglosunarprófin.

Með þökk fyrir frábæran vef sem ég er daglegur lesandi af!


Sæl og blessuð.

Vörn brjóstagjafar gegn getnaði fer svolítið eftir því hvernig að henni er staðið. Hún er öflugust í byrjun en gjafir þurfa þá að vera reglulegar og margar og ekkert snuð notað. Þannig getur hún virkað í marga mánuði. Um leið og gjöfum fækkar, verða óreglulegar eða snuð kemur til sögunnar minnkar vörnin til mikilla muna og egglos getur orðið. Þó er nokkuð algengt að það sé óreglulegt áfram meðan brjóstagjafar nýtur. Það er erfitt að segja ákveðnar tímasetningar því það er mjög einstaklingsbundið. Já, það getur alveg liðið svona langur tími þar til egglos verður en það er kannski ekkert rosalega algengt og nei, brjóstagjöf hefur ekki áhrif á egglosprófið sem slíkt.  Þú ættir því að hafa ágætar líkur á getnaði eins og staðan er í dag en því er ekki að neita að þú myndir auka þær ef þú hættir brjóstagjöfinni.


Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.