Ein 8 mánaða sem vill eingöngu brjóstið

24.06.2005

Hæ, hæ!

Langar að fá smá ráð. Er með eina litla prinsessu sem er að verða átta mánaða. Hún neitar algjörlega að borða og búin að prófa að sjóða allar tegundir af grænmeti, stappa kartöflu með smjöri, brauð með tilheyrandi áleggi, flestar tegundir af krukkumat, heitan graut og bara já næstum allt, í langan tíma. Er þó ekki búin að gefast upp, hélt ég væri kannski að reyna um of og stoppaði í nokkra daga en nei, ekkert lagast. Hún bara lokar munninum, og snýr hausnum frá og vill bara brjóst og eingöngu brjóst. Nú veit ég ekkert hvað ég á að gera, er alveg ráðalaus. Ég er búin að prófa að gera hana svolítið vel svanga og líka eftir brjóstagjöf og bara á öllum tímum.

Hvernig er best að venja hana af eða fækka gjöfum á næturnar. Finnst svo mikið næturbrölt á henni, alveg uppí 6 og jafnvel fleiri gjafir á nótt.

Með fyrirfram þökk, =)))

...........................................................................

Þó að alltaf sé miðað við að byrja að byrja að gefa börnum fast fæði um 6 mánaða aldurinn þá er ekki þar með sagt að þau séu öll tilbúin til þess á þeim aldrinum. Sum eru tilbúin 4 mánaða (ekki mörg) og sum eru ekki tilbúin fyrr en 7,8 eða 9 mánaða. Þannig að þú skalt ekki örvænta. Það kemur að þessu. Reyndu að taka þetta ekki of alvarlega eða láta það vekja þér neinn kvíða. Ekki miða við önnur börn. Hvert barn er einstakt og það er góð regla að fylgja sínu barni eftir í þroska en ekki stara á hvað önnur börn gera. Ég ráðlegg mæðrum alltaf að byrja rólega á að venja á eitthvað nýtt og sennilega þarft þú að byrja extra rólega. Ákveddu matartíma þegar, barnið er í góðu skapi og vel upplagt. Bjóddu hálfa til eina teskeið af þunnum graut sem þú blandar með mjólkinni úr þér. Þá ertu búin að tryggja uppáhaldsbragðið hennar. Þetta gengur í nokkra daga. Þá fara teskeiðarnar í 2 í nokkra daga. Svo er þér óhætt að spila þetta eftir eigin nefi en passaðu þig að fara rólega ef þú ert með viðkvæmt barn í höndunum.   Til að reyna að lengja nætursvefn gæti verið sniðugt að fara með barnið út í smá göngutúr að kvöldi til, láta það kannski göslast svolítið og baða það svo vel og lengi.

Vona að þetta hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. júní 2005
.