Spurt og svarað

01. október 2014

Ein brjóstagjöf á sólarhring

Hæhæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég held ég sé búin að renna yfir allar fyrirspurnir varðandi brjóstagjöf en finn ekki neitt sem svipar til míns tilfellis. Þannig er mál með vexti að þegar dóttir mín var 6 vikna hafði hún ekki þyngst um eitt gramm frá því hún var 4 vikna. Ég var mjög hissa enda hafði hún verið ofboðslega vær og góð. Mætti með hana í aukavigtun 9 dögum seinna og enn hafði hún ekki þyngst. Hjúkrunarfræðingurinn í ungbarnaskoðuninni og ég héldum að ég þyrfti að fara að borða betur. Ábótin hélt hins vegar áfram í formi Nan pela þrisvar á dag. Smátt og smátt síðan þá (orðin 12 vikna) vildi hún orðið bara pelann. Eins og staðan er í dag get ég gefið henni einu sinni á brjóst, sem er morgungjöfin. Stundum rumskar hún um miðnætti og þá gef ég henni en þá vill hún ekki brjóst um morguninn. Hún rétt svo setur varirnar á brjóstin og byrjar bara að grenja, reynir ekki að sjúga. Ég keypti mér handpumpu en það kemur sáralítið. Held ég sé "fastmjólka" a.m.k. hefur aldrei lekið úr þeim. Í þessari einu gjöf þá þambar hún hressilega og er sátt en síðan ekki söguna meir. Ég hef reynt að gefa henni þegar hún er hálfsofandi en ekkert gengur. Er aftur snúið eftir svona? Mig langar ekki að hætta strax en þetta er farið að setjast á sálina og ég vil að við mæðgur séum báðar sáttar við lífið og tilveruna.

Kv frá einni þreyttri.
Sæl og blessuð "ein þreytt"!

Og fyrirgefðu hve seint þú færð þitt svar. Ég á von á að þetta sé allt í svipuðu fari en það er yfirleitt mjög erfitt að snúa til baka í þínum aðstæðum. Vonandi geturðu haldið inni þessari einu gjöf á sólarhringnum því hún er mikilvæg fyrir barnið. Það eru margar konur sem halda eftir einni gjöf mjög lengi og það er bara gott. Þú getur prófað annað slagið við góð tækifæri að bjóða brjóstið en eins og þú hefur rekið þig á þá er það oft undir barninu komið hvort það tekst. Það þjónar ekki tilgangi að velta upp hvað leiddi til vandamálsins en miklvægt að þú gætir þess að fara ekki eins að í næstu brjóstagjöf.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. október 2014.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.