Spurt og svarað

19. janúar 2005

Eingöngu á brjósti

Sælar ljósmæður, takk fyrir góða og upplýsandi vefsíðu.

Dóttir mín er enn eingöngu á brjósti og er 5 mánaða. Ég mjólka mig þegar ég fer eitthvað frá en ég er alltaf svo óviss um hve mikið ég á að skilja eftir af mjólk. Hve mikið þarf u.þ.b 7 kg. barn í eina gjöf?

það er farið að þrýsta á mig (af ættingjum) að fara að gefa henni eitthvað annað en brjóstamjólk en er þetta ekki í lagi meðan hún þyngist vel að hafa hana eingöngu á brjósti?

Takk fyrir.

....................................................................

Sæl og blessuð.

Glæsilegt hjá þér að vera með barnið eingöngu á brjósti og láttu engan segja þér annað.
Svarið við hversu mikið 5 mánaða, 7 kg. barn þarf af móðurmjólk í einum skammti er svipað svarinu við spurningunni hjá hvaða brjóstabarni sem er á hvaða aldri og af hvaða stærð sem það er - óreglulegt.  Nær öll brjóstabörn taka mjög misstóra skammta eftir því hve langt er síðan þau drukku, hvenær dagsins um er að ræða og hversu svöng þau eru og í hvernig „stuði“ þau eru. Mjólkin er líka mis næringarrík eftir því hvenær dagsins hún var mjöltuð, hvert hlutfall formjólkur og eftirmjólkur er o.s.frv. Trúlegt er að skammturinn sé einhvers staðar á bilinu 40-180 ml. en það er alltaf sniðugt að frysta móðurmjólk í litlum skömmtum. Þannig er hægt að byrja að bjóða barninu lágmarksskammt. Ef það vekur ekki nógu mikla hrifningu þá má hita upp annan skammt og svo þann þriðja o.s.frv.

Það er rétt að benda á að þurrmjólk er alltaf eins saman sett og því þarf barn jafnari skammta af henni. Skammtarnir fara svo stækkandi eftir aldri barnsins en það gerist ekki með móðurmjólk heldur breytist samsetning hennar eftir því sem aldur og þroski barnsins eykst. Fólk má passa sig að rugla ekki saman tveimur svo mjög ólíkum vökvum.

Varðandi þrýsting frá ættingjum þá skaltu standa föst á þínu. Þú átt þetta barn og þú ræður alfarið hvernig þú nærir það. Þú hefur líka vísindin á þínu bandi því það er búið að sýna fram á það að börn sem eru „eingöngu“ á brjósti til 6 mánaða aldurs fá síður ofnæmi, astma og ýmsa aðra sjúkdóma. Það er um 6 mánaða aldurinn sem ónæmiskerfi ungbarna er loks fullþroska og ef hægt er að láta vera fram yfir það að bjóða aðra næringu þá er barnið í mjög góðum málum. Það er miðað við að byrja að bjóða fasta fæðu um 6 mánaða aldur því þá er barnið þroskalega tilbúið að fara að tyggja og kyngja. Næringarlega séð gæti barnið verið eingöngu á brjósti í 1 ár.

Með von um velgengni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. janúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.