Einkenni sveppasýkingar í brjóstum og í munni barna

31.05.2007

Ég eignaðist litla stelpuskottu í janúar og allt gengur voða vel, tók strax bæði brjóstin og drakk vel. Í fyrstu fékk ég sár á aðra vörtuna og það var fljótt að gróa aftur. En núna er hún að verða 4 mánaða og ég fékk sár aftur á báðar vörturnar og það er mjög sárt að láta hana drekka, en lét mig hafa það. Ég bar júgursmyrsl á vörturnar, skipti um brjóstapúða og svona en sárin hafa ekki ennþá gróið. Núna er ég að nota mexíkanahatt og það er ekki eins sárt að gefa henni brjóst núna. Hvernig maður greinir sveppasýkingu í munni barna? En á brjósti? Hver eru einkennin? Mig hefur klæjað á vörturnar mikið í gær og í dag en sárin eru samt að gróa. Ég hef aldrei fengið sveppasýkingu áður þannig að ég veit ekki hver einkenni sýkingarinnar eru.

Takk fyrir góða síðu :)

Janúarmamma.


Sæl og blessuð!

Það er ekki hægt með góðu móti að gera greiningar gegnum tölvu frekar en gegnum síma. Það er því alltaf nauðsynlegt að fá skoðun og greiningu í framhaldi. Þá fyrst er hægt að hefja meðferð.  Sveppasýking er þó yfirleitt eitthvað sem kemur eftir nokkra vikna vandræðalausa brjóstagjöf. Fyrstu einkenni eru oft kláði, pirringur og flögnun á vörtubaugum. Svo fara að sjást sprungur á mótum vörtu og vörtubaugs og húðin útfrá verður rauð eða bleik. Í munni barna er algengast að sjá hvíta skán á tungu sem hverfur ekki milli gjafa. Svo sjást oft hvítir kringlóttir blettir innan á kinnum, vörum eða á tanngómum. Oft er lítið sem ekkert sjáanlegt berum augum en einkenni eins og sviði og stingir inn í brjóst meira áberandi.Eins og ég segi þá er best að byrja á því að fá skoðun því það er margt annað sem hefur svipuð einkenni en má ekki rugla saman við þetta.        

Vona að gangi vel.    

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2007.