Ekki geyma mjólk sem lekur!

16.02.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég er með einn 11 vikna. Það hefur lekið mikið úr brjóstunum hjá mér, bæði á meðgöngu og síðan hann fæddist. Ég hef nýtt mér það og geymt og fryst þessa mjólk sem lekur úr hinu brjóstinu þegar ég gef honum. Um daginn fór hann í pössun og fékk þá þessa mjólk úr pela. Hann varð mjög óvær á eftir og spurning hvort hún fór illa í magann á honum. Nú hef ég verið að reyna lesa mér til um þetta hérna og skilst að það eigi kannski að reyna að stöðva þennan leka með dyrabjölluaðferðinni og ég er að velta því fyrir mér hvort þessi formjólk sé ekki góð fyrir hann í miklu magni og kannski þá betra að gefa honum þurrmjólk þegar hann fer í pössun, eða mjólka mig? Er samt bara að tala um 1 gjöf og ekki fer hann oft í burtu frá mér. Hann kann að taka pela en kúgast af þurrmjólkinni ef hann er ekki orðinn glorhungraður. Það lekur mikið á nóttunni og ef það líður óvenju langt milli gjafa bleyti ég sængurfötin og það er frekar þreytandi.

Með fyrirfram þökk.

........................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er rétt sem þú hefur lesið þér til að það er betra að stoppa allan óþarfa leka. Dyrabjölluaðferðin hefur gefist flestum vel og hún hjálpar líka til að líkaminn sjálfur fari að hætta þessu og framleiða magn og samsetningu mjólkur sem hæfir betur barninu. Hér áður fyrr var þessi aðferð sem þú nefnir vinsæl til að ná sér í auka mjólk en það kom fljótlega í ljós að slík lekamjólk er alltaf formjólk. Hún er fremur næringarsnauð og í miklu magni veldur hún börnum óþægindum í maga og veldur lélegri þyngdaraukningu. Það er því nú á tímum aldrei mælt með því að gefa börnum þessa mjólk nema kannski við þorsta á heitum sumardögum. Þegar barnið þitt fer í pössun er best að það fái mjólkaða brjóstamjólk, ekki þurrmjólk. Varðandi lekann hjá þér á nóttunni þá er það ástand sem lagast þegar dyrabjölluaðferðin er farin að skila sínu. Það getur tekið nokkra daga.

Vona að vel gangi áfram,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. febrúar 2006.