Spurt og svarað

11. október 2007

Ekki nóg brjóstamjólk

Sæl!

Ég á eina 4 mánaða stelpu. Brjóstagjöfin hefur gengið vel frá upphafi en nú finnst mér ég bara ekki hafa nóg á kvöldin handa henni. Þetta er annað barnið mitt og finnst mér framleiðslan ekki eins mikil og hún var hjá því fyrsta.Sú litla hefur alltaf þyngst bara um 100g á viku, fæddist 3700 og var 5500 í 3 mánaða skoðun.Mér var ráðlagt að drekka vel að vatni, sem ég geri, u.þ.b. 2-2½ lítra á dag og einnig að drekka ½ glas af pilsner. En allt kemur fyrir ekki. Sú litla neitar alveg pela, búin að reyna 3 tegundir en veður alveg brjáluð. Sofnar frekar svöng alveg brjáluð en að gefa sig. Hún er að vakna tvisvar til þrisvar yfir nóttina til að drekka.

Get ég eitthvað gert til að auka framleiðsluna hjá mér. Er að ná svona 4-5 góðum gjöfum á dag þar sem hún tæmir bæði brjóstin. En það er sko ekki dropi eftir þegar hún er búin að drekka.


Sæl og blessuð.

Þar sem þú hefur þá tilfinningu að verr gangi nú en í síðustu brjóstagjöf ættirðu kannski að líta á hvað hefur breyst. Ef álagið á þér er meira nú en síðast gæti hjálpað að reyna að minnka það.  Mjólkurframleiðsluna geturðu aukið með auknum fjölda gjafa. Þú getur reynt að taka þig til í 2-4 daga og skotið inn aukagjöfum yfir daginn. Vakið hana 1 klst. eftir gjöf og látið hana sjúga 7-10 mín. og lagt hana svo aftur. Á kvöldin virkar vel að nota skiptigjöf. Þá gefurðu 3-5 brjóst í hverri gjöf. Þ.e.a.s. skiptir um brjóst 2-4 sinnum. Það má alveg vera eftir nokkrar mínútur í hvert skipti. Þá geturðu líka prófað að taka inn Fenugreek hylki í nokkra daga og svo þarftu að passa að drekka ekki meira heldur en þú hefur lyst á því það getur haft slæm áhrif á mjólkurframleiðslu. Eftir fáa daga getur verið farið að ganga betur og þá hættir þú aukagjöfunum.

Með mjólkuraukandi kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.