Ekki tilbúin að hætta brjóstagjöf en er að fara að vinna

21.05.2007

Sælar ég hef mikið lesið vefinn ykkar og hef oft fundið svör sem hafa hjálpað mér. En nú er ég alveg ráðþrota.

Ég er með eina tæplega 11 mánaða dömu sem er enn á brjóst. Ég er búin að vera að reyna að venja hana af brjósti núna í nokkurn tíma en ekkert virðist ganga, hún er bara ekki tilbúin að hætta. Ég byrjaði þegar hún var 8 mánaða að venja hana af að hætta að drekka á nóttinni (var sagt að gera það í 8 mánaða skoðuninni) en það gekk ekki betur en svo að það er bara rúmur mánuður síðan hún hætti að drekka á nóttinni. Eftir það fór ég að reyna að minka gjafirnar á daginn en það hefur gengið mis vel. Hún er mjög ákveðin og vill helst drekka þegar henni hentar og það verður að gerast núna!

Vandamálið er að ég þarf að fara að byrja aftur að vinna eftir rúma viku og er þá frá henni allan daginn (frá 9-17). Mig kvíðir ofsalega fyrir því að hætta bara allt í einu með hana á brjóst því það er alltaf verið að tala um að róleg afvenjun sé best.

Hafið þið einhver góð ráð handa mér? Hvað get ég gert þannig að daman fari sem best út úr þessu?


Sæl og blessuð!

Það gilda í sjálfu sér sömu reglur um afvenjun hversu gömul sem börnin eru. Það eru bara breytt samskipti milli móður og barns sem gerir það að það er erfitt hjá sumum eldir börnum. Þetta er mjög einstaklingsbundið og erfitt að gefa um það góð ráð. Best er ef þetta verður samstarfsverkefni ykkar mæðgna þar sem báðir aðilar verða sáttir. Ég get ímyndað mér að það sama gildi þegar þú byrjar vinnu og um aðrar mæður. Þá er kannski gefin gjöf áður en farið er til vinnu. Svo fær barnið annað fæði í pössuninni. Svo er boðin önnur gjöf þegar heim er komið eftir vinnu. Svo hugsanlega síðasta gjöf fyrir nóttina. Þetta fer svolítið eftir hve margar gjafir eru á sólarhringnum þegar byrjað er. Þetta eru 3 gjafir á sólarhring og það er ágætt að halda þeim á meðan viðbrigðin við vinnubreytinguna ganga yfir. Það gæti tekið 2-3 vikur. Þá mætti taka út gjöfina eftir vinnu og bjóða eitthvað annað spennandi á þeim tíma. Svo sérðu til hvernig þið viljið hafa þetta.

Vona að þetta hjálpi eitthvað. 

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. maí 2007.