Spurt og svarað

12. september 2006

Eldri brjóstabörn

Ég á tvö börn. Það eldra hætti ég með á brjósti 13 mánaða, það gekk vel en mér fannst ég meira vera að hætta út af áliti annarra en af minni ósk. Seinna sá ég eftir að hafa ekki haldið aðeins lengur áfram. Nú á ég 16 mánaða stúlku sem hefur dafnað aldeilis frábærlega. Hún er enn á brjósti er líka mikill mathákur og hraust í alla staði. Hún hefur þó aldrei hætt að vakna á nóttunni til að drekka. Ég hef verið afar þolinmóð, mér hugnast ekki grát-aðferðir af neinu tagi en hef verið að bíða eftir að blessunin fari að sofa heila nótt. Það gerist afar sjaldan. Mér finnst það líka vera forsendan fyrir því að ég geti farið að leggja drög að því að enda brjóstagjöfina, því með næturgjöfum helst framleiðslan ansi mikil. Þetta er óneitanlega líka ansi lýjandi því svefninn minn verður aldrei mjög djúpur. Það er líka erfitt fyrir mig að fara frá henni, hef bara einu sinni látið passa hana yfir nótt.

Mér finnst dálítið vanta stuðning fyrir mæður með eldri brjóstabörn. Þegar þau eru lítil fær maður hrós fyrir að hafa þau á brjósti en nú er maður litinn hornauga. Maður einangrast dálítið með þetta og vantar sárlega reynslusögur og stuðning frá öðrum í sömu sporum. Ætti ég leita til brjóstagjafaráðgjafa? Eru einhver samtök eða hópur kvenna með eldri börn á brjósti?


Sæl og blessuð.

Ég er svo hjartanlega sammála þér. Það er hreint út sagt grimmilegt hvernig látið er við konur með eldri börn á brjósti svona oft á tíðum. En eins og þú tókst kannski eftir á síðunni þá svaraði ég nýverið fyrirspurn í þessum dúr. Lestu það svar yfir. Því er líka beint til þín. Og mér finnst ekki spurning að þið eigið að stofna stuðningshóp, samtök eða klúbb af einhverju tagi. Þið gætuð alveg haft samband við mig. Ég gæti mætt á einhverja fundi og haldið hvatningarræður. Ég er ekki viss um hvað það gæti hjálpað að tala við brjóstagjafaráðgjafa svona eina og sér annað en að fá huggunarrík orð. En ef þú heldur að það hjálpi þá skaltu gera það endilega. Þú stendur þig frábærlega.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.